901 - Einu sinni átti ég hest

Og það var sko enginn venjulegur hestur heldur hjólhestur. Og ekki einu sinni neinn venjulegur hjólhestur heldur hét hann Royal og var þess vegna konunglegur eins og búðingurinn frægi.

Jæja, ekki er að orðlengja það að hjólhesturinn minn var svartur. Hrafnsvartur meira að segja. Þetta var ekki nein Möve-drusla eins og Atli hreppstjóra átti. Dekkjastærðin var hvorki meira né minna en tuttugu og átta sinnum einn og hálfur. Ekki neitt tuttugu og sex sinnum einn og þrír fjórðu eða eitthvað svoleiðis.

Man að hjólhesturinn minn kom úr bænum að kvöldi dags sextánda júní. Af hverju man ég það svona vel? Nú vegna þess að sautjándi júni var daginn eftir. En við komum nánar að því bráðum.

Annað hvort kom hjólhesturinn minn með Gardínu-Palla eða Stjána í Saurbæ. Pabbi hafði keypt þennan dýrgrip handa mér í Fálkanum (eða var það í Erninum) daginn áður og ég gat smávegis prófað hann kvöldið sem hann komst í mínar hendur.

Auðvitað kunni ég að hjóla, því að öll höfðum við systkinin lært að hjóla á hjólinu hennar Sigrúnar. Það kom sér vel að það var kvenhjól því annars hefðum við þurft að hjóla „undir stöng" sem var ekki einfalt fyrir óinnvígða.

Jæja, þarna var ég semsagt með minn splukunýja hjólhest að kvöldi til hinn sextánda júní einhvern tíma nálægt miðri tuttugustu öldinni.

Nú var illt í efni. Ég hafði nefnilega nokkru áður látið fallerast og farið í skátana eins og nú er sagt. Það er ekki alveg það sama og að fara í hundana en í þessu tilfelli svipað.

Svo mikill hörgull var á strákum í mínu númeri í Skátafélagi Hveragerðis á þessum tíma að ég hafði verið dubbaður upp í að vera fánaberi í skrúðgöngunni á sautjánda júní. Til að geta sinnt því embætti þurfti ég að mæta snemma og þramma fram og aftur án þess að geta hjólað nokkuð. Það var erfitt en hafðist þó.

Ég man auðvitað ekkert eftir skrúðgöngunni eða skemmtiatriðunum á sautjánda júní skemmtuninni að þessu sinni. Kannski var skemmtunin haldin uppi í Laugaskarði eins og seinna tíðkaðist og þar var vinsælt að slást með koddum eða einhverju þessháttar á tréspýtu sem sett var þvert yfir laugina.

Kannski var skemmtunin á barnaskólatúninu eða á hótelinu ég veit það bara ekki. Líka tíðkaðist víst á sautjándanum að giftir og ógiftir kepptu í fótbolta. Þar keppti ég einhverntíma með ógiftum en aldrei með giftum.

Loksins lauk þó sautjandajúni skemmtuninni að þessu sinni og ég komst á hjólhestinn minn fína og svarta og hjólaði af hjartans lyst um allt. Sjálfsagt var það ekki í þetta sinn, en á þessum hjólhesti tókst mér einu sinni að hjóla án þess að snerta stýrið með höndunum næstum eftir endilangri Heiðmörkinni, eða allt frá bakaríinu og niðurundir Árnýjarhús. Svona var ég flinkur þá.


Bloggfærslur 20. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband