883 - Steingrímur fúli

Steingrímur fúli, Steingrímur Búri
stígur til jarðar þungt.
Icesavið ljóta, Icesavið harða
ætti að fara burt.

Steingrímur er dálítið fúll og segir að Alþingi ráði ekki við Icesave. Rétt hjá honum. Hann ekki heldur. Kannski þjóðin. Treystum á Óla.


882 - Þrjár bækur

Las nýlega bók eftir Ragnhildi L. Guðmundsdóttur sem hún nefnir „Býrðu í glerhúsi - fjölskyldusaga." Ekkert útgáfuár er að finna á bókinni en hún er örugglega nýkomin út. Fékk hana á bókasafninu. Í henni rekur höfundur æfi eiginmanns síns Rögnvaldar Helgasonar, sína eigin og síðan sögu fjölskyldunnar. Þau hafa bæði lent í ýmsu og börnin þeirra líka og um margt minnir bókin öll á fremur langa blaðagrein. Einkum síðari hluti hennar. 

Aðrir sem til þekkja mundu eflaust segja þessa sögu öðru vísi en hún er samt á margan hátt athyglisverð og heldur manni föngnum. Prófarkalestur er lítill og nokkuð um stafsetningar- og málvillur. Höfundinum liggur margt á hjarta og hún segir vel frá. Eiginmaður hennar var um tíma á vistheimilinu að Breiðuvík og einnig á Kumbaravogi. Sjálf varð hún fyrir einelti í æsku og börn þeirra hjóna hafa einnig lent í ýmsum hremmingum.

Önnur bók sem ég las nýlega kom út árið 1954, heitir „Æskustöðvar" og er eftir Jósef Björnsson frá Svarfhóli. Svarfhóll þessi er í Borgarfirðinum og þar ólst Jósef upp. Bók þessa las ég spjaldanna á milli af miklum áhuga og er hún þó bara lýsing á venjulegu fjölskyldulífi á venjulegum sveitabæ í lok nítjándu aldar. Sennilega segir það meira um mig en það sem ég les að ég hef mestan áhuga á hlutum sem gerðust fyrir mitt minni.

Þriðju bókina hef ég verið að glugga í undanfarið. Hún nefnist Almanak hins íslenska þjóðvinafélags 2010 og árbók Íslands 2008. Þessi bók er mjög merkileg og fróðleg. Samskonar bók er gefin út á hverju ári held ég. Fyrir löngu keypti ég Almanakið stundum sérprentað því það var svo ódýrt. Í því er samþjappaður mikill fróðleikur. Mest fer fyrir ýmsum upplýsingum um gang himintungla, flóðatöflum og svo að sjálfsögðu almanakinu sjálfu.

Einhvern tíma á Alþýðusambandsþingi eða LÍV-þingi hlustaði ég á Ásmund Stefánsson og einhverja fleiri ræða um bækur og bóklestur. Það undraði mig mest að svo virtist sem þeir færu aldrei á bókasöfn og þekktu þau ekki. Bókasöfnin eru algjörlega ómissandi fyrir alla þá sem ekki vaða í peningum og ég hef aldrei getað fyrirgefið Jóhannesi Helga að hafa á sínum tíma bannað að bækur sínar væru til útláns á bókasöfnum. Þær voru það nú samt.


Bloggfærslur 2. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband