900 - Fréttablogg

Gott að þeir voru ekki á Evuklæðum, hún hefði orðið foj við. Og svo áfram.

Guð er aumingi segir Sigurður Þór Nimbus á sínu bloggi, en leyfir engar athugasemdir við þá færslu. Það er nú reyndar aumingjaskapur líka en vel skiljanlegur.

„Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf." Þetta lærði ég einu sinni eins og páfagaukur og fékk Jesúmynd í ramma fyrir á stúkufundi hjá Sigurþóri. Samt finnst mér ég ekki vera trúaður og strax um fermingu eða fyrr var ég farinn að efast mikið og ekki hefur trú mín styrkst síðan.

Ég er miðnæturbloggari og hef hingað til forðast að fréttablogga. Geri samt stundum vísur sem ég set á visur7.blog.is og hengi þær í fréttir á mbl.is. Gefst vel. Blogga eiginlega aldrei með hliðsjón af einhverju sem ég sé á Moggavefnum. Sumir hengja sín blogg samt oft í einhverjar fréttir og eru ekkert hræddir við takkann sem Mogga-guðirnir hafa sett fyrir þá sem vilja tilkynna vafasöm fréttablogg. Nýlegar og krassandi fréttir eru heldur ekki algengar um miðnæturleytið. Ætla samt að prófa þetta.

Vonandi fyrirgefst mér á efsta degi þó mér hætti til að rugla þeim saman Jórunni Frímannsdóttur og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Báðar eru þær að ég held borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í farsanum sem fram fór fyrir nokkru og kallaður var „blaðamannafundir vegna nýs meirihluta " man ég af einhverjum ástæðum betur eftir smáatviki á einum þeirra en flestu öðru sem þar fór fram. Þar komu annaðhvort Jórunn eða Þorbjörg við sögu.

Framarlega í flokknum
finnst mér hún um stund.
Skálmar hún í skokknum
skyndilega á fund.

Fékk nýlega bréf í tölvupósti frá Atlantsolíu. Í því stóð ekki annað en þetta: „Smelltu hér ef þú getur ekki skoðað póstinn eins og hann á að vera."  
Ég sá ekkert til að smella á og auk þess er ég ekki viss um hvernig pósturinn á að vera. Þarna er greinilega um að ræða gallaða hugsun annaðhvort hjá mér eða bréfritara.

5188 er að verða eins fræg tala og atkvæðin sem Ólafur F. Magnússon tónaði eða tuldraði í sífellu í Spaugstofuþættinum fræga og var víst atkvæðafjöldinn sem flokkur hans hlaut i borgarstjórnarkosningunum. Man samt ekki hver talan var. 5188 er fjöldinn sem þátt tók í „þjóðaratkvæðagreiðslunni" á Eyjunni. Semsagt marklaus könnun. Marktækar skoðanakannanir held ég samt að hafi sýnt meirihluta kjósenda andvígan Icesave-ríkisábyrgðinni. Líka hafa margir skorað á Ólaf Ragnar að skrifa ekki undir ríkisábyrgðarlögin. Getur orðið spennandi alltsaman.


mbl.is Vestfirskir fótboltamenn á Adamsklæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband