899 - Hið nýja evangelíum

Hið nýja evangelíum birtist okkur í Kaupmannahöfn þessa dagana. Ráðamenn heimsins eru sammála um að ráðlegast til að hafa stjórn á skrílnum sé að skrifa uppá álit þeirra sem álíta að allt sé á hraðri leið til andskotans í loftslagsmálum.

Þeir sem allt hafa á hornum sér varðandi heimshlýnun og gróðurhúsaáhrif kunna vel að hafa rétt fyrir sér. Áróður þeirra er samt farinn að minna mig á trúarkreddur fyrri tíma. Sjálfur er ég svolítið hallur undir þá skoðun að ekki sé með öllu sannað að hlýnun andrúmsloftsins sé af mannavöldum. Þar með er ég víst orðinn afneitari og óalandi og óferjandi í ráðandi kreðsum í okkar heimshluta að minnsta kosti.

Áhættan sem því fylgir að taka mark á mér og mínum líkum í þessum efnum er samt töluverð. Hugsanlega meiri en hægt er að rísa undir. Mér finnst samt að svona afdrifarík mál megi ekki verða einkaeign sérfræðinga og stjórnmálamanna.

Þegar kemur að bankahruninu og kreppunni taka margir hlutina alltof mikið inná sig. Auðvitað hafa sumir það býsna skítt. Oft er það beinlínis útaf kreppufjandanum en stundum blandast aðrir hlutir saman við. Lífskjörin versna, ekki fer hjá því. En hefur það ekki alltaf verið svo? Eigum við einhverja heimtingu á að halda þeim lífskjörum sem einu sinni er náð? Er ekki lífið allt ein rússibanareið? Upp og niður í lífskjörum sem öðru? Allt fer þetta einhvern vegin og hæfilegt kæruleysi er af hinum góða.

Gríðarleg áhersla er nú lögð á að klekkja á ríkisstjórninni. Ekki bara Mogginn og ekki bara Bjarni Ben. og Sigmundur heldur eru allir virkjaðir sem mögulegt er. Ég ætla samt enn um sinn að styðja hana. Einkum vegna þess að ég er sannfærður um að aðrir kostir eru ekki betri. Enda virðist engum detta í hug að æskilegt sé að bjóða uppá eitthvað betra.

Eitt sinn var bryggja byggð á Íslandi. Man ekki almennilega hvar. Svo kom óveður og mikið brim og bryggjan brotnaði í spón. Þá var kveðið:

Hér var staurabryggja byggð.
Bæjarins mesta prýði.
Ellefu stundir stáli tryggð
stóð sú snilldarsmíði.

Mér varð hugsað til þjóðfundarins sem hér var haldinn með pompi og prakt í Laugardalshöll fyrir rúmum mánuði. Veit ekki hvers vegna mér datt ofanrituð vísa í hug í því sambandi. Staðreynd er þó að ekki hefur verið mikið minnst á þjóðfundinn í fréttum undanfarið. Það hlýtur þó að standa til bóta.


Bloggfærslur 18. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband