898 - Heimskuleg fyrirsögn

Einhver heimskulegasta fyrirsögn allra tíma blasti við þeim sem börðu DV augum í morgun. Þar stóð með flennistóru stríðsletri: „Prestur flýr land". Í mínum augum eru prestar ekki vitund merkilegri en aðrir og ef einhverjir kjósa að flýja land sé ég ekki af hverju prestar ættu að vera undanþegnir því. Las reyndar ekki greinina sem líklega hefur fylgt þessu svo hugsanlega hefur ritstjórinn einhverja afsökun fyrir vitleysunni.

Þegar rætt er um heimspekileg og trúarleg efni hér á Moggablogginu verður helst að hafa umræðuna þannig að allir geti skilið. Áberandi er að fræðimenn á þessu sviði verða oft svo illskiljanlegir að enginn nennir að lesa það sem þeir skrifa nema þá helst aðrir fræðimenn á sama sviði. Ætla að minnast hér á þrjá menn sem fást talsvert við að rökræða trúarleg efni, án þess þó að vera um of fræðilegir, og hvernig þeir koma mér fyrir sjónir. Auk þess að hafa gaman af trúarlegum pælingum eru þeir svo skrítnir að þeir lesa þetta blogg mitt reglulega og kommenta þar oft.

DoctorE er öfgafullur efahyggjumaður. Búið er að úthýsa honum af Moggablogginu en þann lætur það ekki á sig fá. Kannski er hann bara feginn. Bloggar af miklum krafti á eigin vefsíðu og setur þar gjarnan videómyndir eða linka í þær. Myndirnar fjalla einkum um trúarleg efni og augljóst er að Doksi fylgist vel með erlendri umræðu um hugðarefni sín. Kommentar miklu sjaldnar núorðið en áður var.

Kristinn Theodórsson er leitandi efahyggjumaður. Hefur gaman af rökræðum og að skilgreina umræður og fullyrðingar, bæði sínar og annarra.

Sigurður Þór Guðjónsson er svolítið stríðinn og það er stundum erfitt að átta sig á honum á þessu sviði. Slær stundum fram fullyrðingum sem líta fáránlega út á yfirborðinu en hann er samt tilbúinn að rökræða þær. Er fátt heilagt nema þá helst kötturinn Mali.

Ómar Ragnarsson lýsti því ágætlega á sínu bloggi um daginn hvernig menn glúpnuðu gjarnan fyrir Davíð Oddsyni á sínum tíma þó þeir væru sendir til að tala hann til. Merkilegast þótti mér þó alltaf hvernig Hreinn Loftsson gafst upp fyrir honum án þess að sjá hann. Talaði digurbarkalega í samtali við útvarpið um kvöldið þegar hann var að leggja af stað frá London en þegar heim kom var ekki á honum að heyra að neitt væri að. Þetta var um það leyti sem bolludagsræðan fræga var flutt. Hreinn vildi meina að Jón Ásgeir hefði ekki verið að biðja sig að múta forsætisráðherranum. Mútumálið sjálft og afdrif þess er svo efni í langa grein.


Bloggfærslur 17. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband