897 - Vísnablogg

Er bloggið mitt að breytast í vísnablogg? Kannski. Það er skárra en að það verði pólitískt blogg eða rakið fréttablogg. Verst að maður ræður ekki allskostar hvernig vísurnar verða sem maður setur saman. Vísur eiga vel heima í athugasemdum þykir mér. Vel má líka nota þær í bloggin sjálf. Einkum ef þær eru sæmilegar.

Gísli Ásgeirssson gerir þetta oft ágætlega í sínu bloggi og hann er þar að auki bæði fjölfróður og fyndinn. Hefur einnig ágætis tök á limrum sem ég hef næstum aldrei getað sett saman. Sömuleiðis eru blogg Páls bróður hans þannig að helst ekki má missa af þeim. Stundum er samt erfitt að fylgja honum eftir því hann bloggar hér og þar. Síðast þegar ég vissi var hann á Eyjunni en þar áður í húsmennsku hjá Gísla bróður sínum.

Mér leiðast Icesave-umræður. Pældi samt í gegnum umræður um það efni sem Emil Hannes fór af stað með. Er sammála honum um að siðferðislega er ekki hægt annað en samþykkja að greiða þetta. Lagakróka og þessháttar er hægt að nota í báðar áttir. Pólitískir flokkar ráða of miklu um afstöðu fólks í þessu máli og útlendingahatrið er alltof áberandi.

Íslendingaval minnir mig að atkvæðagreiðslan um Icesave sé kölluð á Eyjunni. Þetta er markverð tilraun og verður Eyjunni eflaust til álitsauka ef vel tekst til. Hugsa að ég taki samt ekki þátt. Finnst málefnið ekki henta nógu vel.

 


Bloggfærslur 16. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband