895 - Gönguferðir

Skömmu fyrir síðustu aldamót stundaði ég gönguferðir grimmt. Eitt sinn fórum við allmörg í gönguferð frá Hvítársskála við Hvítárvatn til Hveravalla. Gist var í skálunum við Þverbrekknamúla og í Þjófadölum. Margt er minnisstætt úr þessari ferð og um daginn fann ég vísu á bréfsnifsi sem ég hef líklega samið þá. Kann samt að vera eftir einhvern annan úr hópnum. Frá þessum tíma og ferð um þessar slóðir er hún þó örugglega. Svona er hún:

Í Þjófadali þreyttir slaga
þrettán útilegumenn.
Með tómar flöskur, tóma maga
og tómir verða pokar senn.

Í gestabókina í skálanum við Þverbrekknamúla minnir mig að hafi verið settur einhver samsetningur um sérsamband sauðaþjófa og þessi vísa kann að standa í einhverju sambandi við það.

Í minningunni eru merkustu ferðirnar í þessari göngudellu minni einkum fimm. Það er að segja tvær eftir Laugaveginum milli Landmannalauga og Þórsmerkur, tvær frá Hvítárvatni til Hveravalla og ein um Hornstrandir þar sem lagt var af stað í botni Hrafnsfjarðar og farið yfir í Furufjörð og þaðan sem leið liggur norður í Hornvík og síðan í Hlöðuvík og Kjaransvík og yfir fjallið til Hesteyrar, en þangað sótti Fagranesið okkur.

Nokkrum sinnum hef ég líka gengið milli Reykjavíkur og Hveragerðis en það telst nú varla til stórafreka. Þreyttur var ég þó eftir þær ferðir enda voru þær allar farnar eftir síðustu aldamót. Eitt sinn man ég að ég ætlaði mér að ganga þar á milli á hverju ári en síðustu árin hefur það farist fyrir.

Ég er svolítið hugsi yfir sumum kommentunum sem ég fæ. Svo virðist vera að einhverjir álíti mig hægri sinnaðan og andvígan ríkisstjórninni. Mér finnst ég vera:

Meðmæltur því að Icesave ríkisábyrgðin verði samþykkt eins og nú er komið sögu og ég veit best. Hjá því verður einfaldlega ekki komist.

Meðmæltur ríkisstjórninni sem nú situr. Hún gæti verið betri en er skárri en flest annað sem hugsanlega er í boði.

Meðmæltur inngöngu í ESB.

Margt má um þetta segja og vissulega skiptir þetta meira máli en einhverjir flokksstimplar. Auðvitað hef ég orðið fyrir áhrifum úr ýmsum áttum og einu sinni kaus ég meira að segja Framsóknarflokkinn. Það var þó bara einu sinni og hefur áreiðanlega verið vegna áhrifa frá Samvinnuskólanum.


Bloggfærslur 14. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband