892 - Gáfaður í bloggheimum

Það er auðvelt að þykjast voða gáfaður í bloggheimum. Staðreyndir má auðveldlega gúgla og ef maður nennir því ekki eða getur ekki er hægt að skrifa framhjá þeim. Skrifi maður um eitthvað sem maður hefur lítið vit á er ráðlegast að hafa það yfirborðslegt og ekki of langt. Það sem maður hefur þó vit á er svo sjaldan til umræðu að ekki er orðum að því eyðandi.

Endurminningar eru ágætis bloggefni en engin ástæða til að trúa þeim bókstaflega. Hef oft tekið eftir að það sem maður heldur endilega að sé satt og rétt í þeim efnum er það alls ekki. Ástæðan er sú að hugurinn er sífellt að endurraða minningum og henda allskyns óþarfa. Fáir eru með þvílíkt límminni að þeir muni alla hluti sem gerast á langri æfi.

Þegar maður skrifar blogg-greinar er alltaf álitamál hve mikið á að linka í annað efni. Best er að endursegja það eftir eigin höfði og eiga ekkert á hættu með að missa lesandann. Hann á samt sinn rétt. Maður hefur hvort sem er allt sitt vit af Netinu og  líka er gott að linka í sjálfan sig og sleppa þannig við endurtekningar. En fara lesendur nokkuð eftir þessu? Nenna þeir að flækjast um víðan völl bara af því að linkað er í allt mögulegt? Ekki hann ég. En kannski sumir.

Held að blogg.gáttar bloggurum sé verulega að fjölga. Fréttagreinar virðast samt enn vera mun fleiri en bloggin. Bráðum verða allir bloggarar þar hvort sem þeir eru góðir eða slæmir. Ég skrolla bara niður eftir listanum og kíki á þær fyrirsagnir og þau nöfn sem mér líst á. Eflaust gera flestir það.

Jóhann Hauksson er að verða einn af mínum uppáhalds pólitísku bloggurum. Langorður að vísu en vinstrisinnaður á ágætan hátt. Jónas Kristjánsson er líka góður. Davíðshatur beggja er samt dálítið barnalegt á köflum. Báðir eru þeir á blogg-gáttinni og best að fylgjast með þeim þar. Ef Staksteinar (morgunbladid.blog.is) eru dæmi um Davíðsfyndni er hún sífellt að verða ómerkilegri.

Var að lesa frétt og þar var talað um „þverfaglegan aðgerðahóp." Þetta er tískufyrirbrigði en ég er bara svo skrýtinn að ég má helst ekki sjá orðið „þverfaglegur" því þá dettur mér alltaf í hug orðið „þvagleggur" og ekki meira um það.


Bloggfærslur 11. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband