891 - Facebook og blogg

Las grein um Facebook og hópamyndanir þar eftir að hafa kíkt á bloggið hjá Don Hrannari í morgun og athugasemdast ögn hjá honum. Datt í hug að gera smávísu um fésbókina og lauk við hana um líkt leyti og ég kláraði greinina.  

Vísan er svona:

Fésbókina forðast ég
finnst hún vera léleg.
Eiginlega asnaleg
og ekki mikið féleg.

Greinin var á deiglunni.com og þangað var mér vísað af blogg.gáttinni.is.

Vísnagerð róar hugann næstum eins mikið og hraðskák. Maður ræður litlu um efnið, því stuðlar og rím taka völdin. Samt verður útkoman eitthvað í líkingu við það sem maður vildi sagt hafa. Þægilegt er að hafa blað og blýant við höndina og hripa niður það sem manni dettur í hug. Annars gleymist það bara. Venjulega dettur manni fljótt í hug nothæf setning og svo er bara að prjóna við hana. Í þessu tilfelli datt mér fyrst í hug fyrsta ljóðlínan.

Varðandi hraðskákirnar er ég bara að tala um skákir á Netinu við einhverja sem maður þekkir ekki neitt. Fyrst æsa þær mann upp. Svo þegar maður er hættur að vilja endilega vinna og orðið sama um stigin, þá róa þær mann bara.

Nú er orðið úr þessu þokkalegasti partur úr blogg-grein og kannski nota ég þetta í kvöld.

Einu sinni voru bara tvö hringtorg í Reykjavík. Melatorg og Miklatorg. Svo þótti ekki nógu fínt að hafa Miklatorgið fyrir hringtorg og eftir það voru hringtorg lengi mjög óvinsæl. Svo komust þau aftur í tísku og undanfarin ár hefur þeim fjölgað svo mikið að ég gæti trúað að enginn viti lengur hve mörg þau eru á höfuðborgarsvæðinu.

Engin hringtorg er mér samt eins illa við og þau í Mosfellssveitinni sem verða fyrir manni þegar maður er á leið norður eða vestur. Núorðið lýkur þessum ósköpum ekki fyrr en í Kollafirðinum. Ef Sundabrautin kemst í gagnið áður en ég hrekk uppaf og hægt verður að losna við þessi ósköp verð ég ógeðslega feginn.

Þegar hægri umferð var tekin upp hér á landi lentu sumir í vinstri villu fyrst á eftir. Stundum olli það slysum. Reynt var að nota þetta pólitískt og auðvitað mætti núna tala um hægra hrun. Áður var líka oft í pólitíkinni talað um „móðuharðindi af mannavöldum".

Svona merkimiðar eru samt lítils virði og ef menn hafa ekki annað til málanna að leggja er betra að láta stjórnmálin eiga sig. Nóg annað er til.

Á kaffistofu Pressunnar er eftirfarandi setning og meira að segja vísað á blogg-gáttinni til þeirrar greinar sem hún er í:

„Fjarvera beggja var áberandi í ljósi mikilvægis málsins og þess hversu litlu munaði að það yrði samþykkt til þriðju umræðu."

Þarna er verið að tala um fjarveru þingmannanna tveggja Helga Hjörvar og Sifjar Friðleifsdóttur við atkvæðagreiðsluna í gær. Nú veit ég að frumvarpið VAR samþykkt til þriðju umræðu og væntanlega höfundur þessarar málsgreinar einnig. Hann hefur þó fremur daufan málskilning og þarf ég varla að rökstyðja það frekar.


Bloggfærslur 10. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband