859 - DoctorE

Jóhanna Magnúsdóttir tilkynnir á bloggi sínu í grein sem hún nefnir „Þeim vanstillta hent út", að hún hafi lokað bloggi sínu fyrir DoctorE. Í fyrstu án þess að nefna hann á nafn en í athugasemdum kemur fljótlega í ljós hvern hún á við. Fleiri en Jóhanna hafa lokað á DoctorE og stjórnendur Moggabloggsins hafa meinað honum að blogga hér. Hann hefur þó leyfi til þess að kommenta eins og aðrir og meira að segja eins og hann sé bloggari hér.

Mér finnst aldrei og ég undirstrika ALDREI, réttlætanlegt að loka á menn með þessum hætti. Vissulega er DoctorE oft æði hranalegur og stuðandi. Þeir sem um trúmál blogga verða því annað hvort að brynja sig gagnvart því sem hann segir eða mæta honum á annan hátt. Það sem DoctorE er heilagt er einmitt nafnleysið. Honum finnst hann hafa rétt á því að láta skoðanir sínar í ljós á þann hátt sem honum sýnist og án þess að gefa upp nafn sitt. Í þessu er ég honum sammála.

Mig minnir að ég hafi fyrst kynnst DoctorE þegar ég í bloggi númer 452 í september árið 2008 skrifaði dálitið um söguna frægu um Bjarna-Dísu. Þá skrifaði hann þetta:

Fjúkk... gott að þetta var ekki "alvöru" draugasaga, þá hefði ég kannski þurft að eiga við þig eins og eitt orð um það að draugar eru ekki til

DoctorE, 16.9.2008 kl. 20:07

Þetta fannst mér yfirlætislegt með afbrigðum. Síðan hef ég kynnst DoctorE betur og styð hann algjörlega í nafnleysismálinu. Í trúarlegum efnum deili ég ekki við hann. Jóhanna nefnir eftir einhverjum öðrum að líta beri á DoctorE sem einskonar „bakgrunnshávaða." Þetta finnst mér vel sagt. Ef fólk getur ekki höndlað það sem DoctorE segir um trúmál þá er upplagt að tala frekar um eitthvað annað.

Ég mundi vilja hafa fídus í bloggkerfinu hér sem gerir mér kleift að fá ekki tilkynningar um nýjar athugasemdir við ákveðin blogg. Kannski er hann til án þess að ég kunni á hann og vonandi kennir einhver mér þá á hann. Þegar það kemur fyrir að fjöldi athugasemda keyrir úr hófi þá er nauðsynlegt að geta hætt að taka þátt í því rugli sem þar getur verið á ferðinni og halda áfram að blogga um annað. Athugasemdir við vinsæla bloggið eru þá stundum til trafala við að fylgjast með athugasemdum við önnur blogg.

 

Bloggfærslur 9. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband