857 - Egill Helgason

Þetta blogg fjallar eingöngu um Egil Helgason. Ég þarf ekki að biðjast afsökunar á því. Egill er svo fyrirferðarmikill orðinn í íslensku menningarlífi að mörgum finnst nóg um. Sjálfum finnst honum það þó ekki og áreiðanlega ekki heldur æstustu aðdáendum hans.

Byrjum á blogginu hans. Það skoða ég allajafna en athugasemdirnar sjaldan. Skilst samt að þær séu oft margar og sumar þeirra vel þess virði að lesa. Google Readerinn minn býður þó ekki upp á það. Með því að klikka á fyrirsögnina og fara á bloggið sjálft gæti ég að sjálfsögðu skoðað kommentin. Finnst samt yfirleitt ekki taka því. Bloggið hans er eiginlega hvorki vont né gott. Yfirgripsmikið samt og mikið lesið og áhrifaríkt. Mest kannski vegna vinsælda hans á öðrum sviðum.

Augljóst er að margir hafa samband við hann og hann fær margt að vita sem öðrum er hulið. Aðrir sem hefðu sömu upplýsingarnar og samböndin hans gætu eflaust bloggað betur. Lára Hanna gerir það og tekur honum í raun og veru langt fram. Bæði eiga þau sér samt óvildarmenn.

Egill sóar hæfileikum sínum líka í annars flokks umræðuþátt um stjórnmál. Vinsældir þáttarins byggjast á því einu að hann hefur enga samkeppni. Mér finnst engin goðgá að segja að „Silfur Egils" sé annars flokks þáttur. Aðrir gætu sem best stjórnað slíkum þætti miklu betur en hann gerir. Oft hefur hann þó staðið sig ágætlega í vali viðmælenda. Stjórn hans á þáttunum er hins vegar afleit. Þar talar hver upp í annan og Egill spyr langra spurninga og misheppnaðra og veifar handleggjunum í allar áttir.

Kiljan er aftur á móti afbragðsvel gerður þáttur. Þar er Egill á heimavelli. Bókmenntir og saga eru það sem hann kann að fjalla um. Jafnvel Bragi er að verða klassískur. Þegar maður horfir á Kiljuna verður manni hugsað til þess hve sjónvarpið er búið að starfa lengi án þess að gera bókmenntum skil að ráði.

Trú mín er sú að þó Kiljuþátturinn mundi leggjast af mundi spretta upp annar bókmenntaþáttur. Slíkt hefur vantað lengi og vandséð er hvernig hægt væri að komast af án slíks þáttar. Varðandi bókmenntirnar hefur Egill gert það sem engum öðrum hefur tekist. Búið til vinsælan og öflugan framhaldsþátt í sjónvarpi um þær. Það er afrek sem munað verður.

 

Bloggfærslur 7. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband