855 - Karakúl og sími

Einu sinni í fyrndinni var Búnaðarritið gefið út árlega. Pabbi var áskrifandi að því enda fyrrverandi bóndi og las ég stundum eitt og annað þar ef ekki var annað að hafa. Í þann tíð var Páll Zóphaníasson búnaðarmálastjóri. 

Einhverntíma fyrir mitt minni en þó á tuttugustu öldinni var flutt inn svonefnt Karakúlfé. Það átti að auka mjög arðinn af hinni íslensku landnámsrollu en reyndin varð sú að með því kom mæðiveikin sem hafði miklar hörmungar í för með sér.

Ragnar Ásgeirsson ráðunautur bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands bjó að Helgafelli í Hveragerði. Hann var hagmæltur vel og hafði yndi að hverskyns þjóðlegum fróðleik. Gaf meðal annars út þjóðsagnabókina Skruddu. Eftirfarandi vísa er eftir hann og um Pál búnaðarmálastjóra.

Þegar Palli þenur gúl
þykir kárna gaman.
Hann er eins og Karakúl
kynblendingur í framan.

Símamál ættu ekki að þurfa að vera ákaflega flókin. Símafyrirtækin leitast þó við að gera þau sem allra flóknust til að geta svindlað sem mest á fólki. Á mínu heimili erum við með einn heimasíma og tvo farsíma sem eru lítið notaðir. Auk þess ADSL-Internetsamband. Um daginn ætlaði ég fyrir þrábeiðni konu nokkurrar í þjónustudeild Símans að skipta um fyrirtæki. Þ.e. skrá mína síma hjá Símanum í stað Vodafone.

Í sem stystu máli sagt er allt búið að vera í ólestri síðan og sennilega búið að klúðra því sem hægt er að klúðra. Svo blönduðust sjónvarpsmál inn í þetta allt saman og ekki bætti það úr skák. Sennilega dygðu mér tæpast tíu blaðsíður til að gera sæmilega grein fyrir þessu öllu svo ég sleppi því bara en vona að málin komist í lag á endanum.

Rannsóknir á ruslahaugum. Páll Theodórsson segir að landnám Íslands hafi orðið um 670. Það finnst mér trúlegt og hefur það lengi verið haft fyrir satt meðal fornleifafræðinga að landnámið hafi átt sér stað þónokkru fyrr en Ari fróði segir. Fyrir nokkru bloggaði ég um þetta og minntist þá á hugmyndir Páls um að rannsaka kolagerð frá fyrri tímum. Sömuleiðis eru ruslahaugar hvers konar mjög forvitnilegir til rannsókna. Þetta verkefni er að fara í gang núna og fyrstu niðurstaðna jafnvel að vænta fyrir næstu jól.

 

Bloggfærslur 5. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband