853 - Hagar

Það er margt sem bendir til þess að helsta átakamálið í stjórnmálum næstu vikurnar verði eignarhaldið á fyrirtækinu Högum. Sú er að minnsta kosti von sjálfstæðismanna sem virðast hafa þá köllum umfram aðrar að koma núverandi ríkisstjórn frá. Hvað þá tekur við er afar erfitt að segja en svo virðist sem forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vilji fremur fiska í því grugguga vatni en vera þægir og hugsa um þjóðarhag. Sjálfstæðismenn þurfa líka að huga að því að talsverðar líkur eru á að flokkurinn klofni og hefur sú hætta farið vaxandi að undanförnu í réttu hlutfalli við aukin völd Davíðs Oddssonar.

Hvur er það sem hefur Haga?
Hann Geiri litli Bónus-son?
Úr hans magt vill Dabbi draga
Og dempa mjög hans hagavon.

(hagavon = hagnaðarvon - held ég)

Ég held samt að ríkistjórn Jóhönnu og Steingríms muni tóra enn um sinn og jafnvel koma einhverju í verk. Eflaust ekki nógu samt til að friða þá óánægðu sem sífellt fer fjölgandi. Næstu kosningar held ég að verði vorið 2011.

Orku-umræða öll mun fara mjög vaxandi á næstu mánuðum og misserum. Inn í hana blandast að sjálfsögðu náttúruverndarsjónarmið sem munu skipa sífellt hærri sess í hugum fólks. Ómar Þ. Ragnarsson og Dofri Hermannsson mundu aldrei eiga framtíð fyrir sér í Sjálfstæðisflokknum en vel er hugsanlegt að þeir plumi sig í Samfylkingunni enda eru þeir báðir þar og ætla sér áreiðanlega stóra hluti.

Svo bíða menn átekta eftir að umræður um stóra málið blossi upp einu sinni enn. Hér á ég auðvitað við ESB. Alls ekki er víst að allir aðilar fjórflokksins svonefnda komist í gegnum þau ósköp. Verstur verður klofningurinn í þessu máli líklega í Sjálfstæðisflokknum. Ef flokkurinn færist verulega til miðju eins og sumir vilja þá munu stuðningsmenn ESB-aðildar hugsa sér til hreyfings. Kvóta-auðvaldið og nýfrjálshyggjan munu þá ef til vill kljúfa sig frá öðrum í flokknum.

Lána bankar löngum frekt.
Líka stöku jóði.
En barnalán er barnalegt
og barnar sparisjóði.

 

Bloggfærslur 3. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband