879 - Traust og vantraust

Hvað er það sem mest skortir í íslensku þjóðfélagi í dag? Mér finnst það ekki vera peningar þó umræður á Alþingi snúist ekki um annað þessa dagana. Fólk treystir ekki ríkisstjórninni, treystir ekki stjórnmálamönnum eða stjórnvöldum, ekki eftirlitsstofnunum, og allra síst bönkum og fjármálastofnunum. Kannski treystir fólk hvert öðru og sínum nánustu en það er ekki nóg. Kemur þó í veg fyrir að borgarastríð skelli á eða blóðug bylting verði en lagar ekki þær meinsemdir sem grassera í þjóðfélaginu. Helsta meinsemdin er vantraustið á öllum sviðum. Andleg heilsa fólks er miklu meira virði en peningar.

Einu sinni vann ég hjá KÁ. Einnig hjá KB. Þá voru kaupfélögin aflið mikla sem allir litu upp til. Svo kom Kaupþing og eyðilagði skammstöfunina KB. Kaupfélögin hurfu (flest). Samvinnusagan er fag sem bara var kennt í Samvinnuskólanum. Mest var þar sagt frá sjálfmenntuðum bændahöfðingjum. Kaupþing hrundi og skipti um nafn. Allt er breytingum undirorpið.

Á bókamarkaði ekki alls fyrir löngu keypti ég bók sem heitir „Baráttan við fjallið." Hún fjallar um sögu Kaupfélags Árnesinga. Ágætt að lesa þá bók því ég kannaðist við flesta sem þar var minnst á. Bókin var samt ekkert sérstaklega vel skrifuð.

Man eftir að eiga einhversstaðar bókarkorn um KB eða Kaupfélag Borgfirðinga. Þar voru meðal annars myndir af glæsilegum bílaflota félagsins. Skúli Ingvarsson tók þær myndir. Man eftir að ég tók líka myndir á videóvélina okkar í ÚSVB af bílunum. Þá var brúin komin og þeir óku útá Seleyri og til baka í einni halarófu.


Bloggfærslur 29. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband