876 - Jóhanna vill helst fá hund

Steingrímur með styrkri mund
stýrir burt frá miðju.
En Jóhanna vill helst fá hund
í Helguvíkursmiðju. 

 

Flest bendir til að þeir sem vilja semja við Breta og Hollendinga í Icesave málinu trúi því einlæglega að með því eina móti getum við sannfært umheiminn um að við séum alvörufólk. Orðspor okkar Íslendinga er afspyrnulélegt og hefur kannski alltaf verið það.

Lífskjör hér á landi eru allgóð. Þau munu versna vegna kreppunnar en samt ekki verða sérlega slæm. Ástæðulaust er að láta eins og heimurinn sé að farast. Við bætum ekkert með því. Sjálfsagt hefði verið að fá utanaðkomandi aðila okkur til aðstoðar ef við hefðum viljað komast með hraði uppúr kreppunni. Svo hefur þó ekki verið gert og stjórnvöld vilja helst koma á svipuðu ástandi aftur og hér var.

Það er slæmt því almennur vilji er að hér verði fyrirmyndarríki hvað snertir jöfnuð og gegnsæi. Gallinn er bara sá að stjórnkerfið verður alltaf veikt því það getur ekki orðið trúverðugt. Til þess er fámennið of mikið. Spillingin sker í augun en enginn vill sjá hana. Við erum meistarar í að dylja hana. Gerum grín að útlendingum sem þykjast sjá hana. 

Auk spillingarinnar er mesta hættan, sem við Íslendingar verðum fyrir með daðri okkar við það sem við köllum nútímalega heimsmenningu, sú að unga kynslóðin venst á ofneyslu afþreyingar. Allir vilja skemmta sér til dauðs. Ýmislegt annað en taumlaus neysla er þess virði að lifa fyrir.

Það er engin ný bóla að hverskyns fjárglæfrar séu fjármagnaðir með skammtímalánum eða okurlánum eins og þau voru einu sinni kölluð. Ávísanakeðjur og víxlar með afföllum eru góð dæmi um það. Áður fyrr voru ríkisbankar þó íhaldssamir og fjármögnuðu sig einkum með langtímalánum. Með einkavæðingunni og fjármálabólunni breyttist þetta. Fín nöfn voru fundin upp fyrir það sem áður var litið niður á. Endurfjármögnun skyldi það heita en var auðvitað ekkert annað en það að velta vandanum á undan sér.

Okurlánin eru hlý
en ekki kostur góður.
Kemur núna kannski því
kreppulánasjóður?

Óknattspyrnufróður útlendingur sem mundi kynna sér íslenska menningu og fjölmiðlun kæmist fljótt að raun um að Liverpool og Mancheseter United væru íslensk knattspyrnufélög. Margir Íslendingar vita þó betur. Íþróttafréttamenn samsama sig gjarnan þessum félögum og flytja fréttir af þeim reglulega og gengi þeirra í Evrópukeppnum allskonar er flestu öðru mikilvægara.


Bloggfærslur 26. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband