874 - Kreppan

Hvort fer mannkyninu fram eður ei? Mér finnst svarið við þeirri spurningu skipta höfuðmáli í sambandi við öll trúarbrögð. Þau trúarbrögð sem ekki leggja áherslu á það góða í mannskepnunni eru einskis nýt. Svartagallsraus gerir ekkert annað en eitra andrúmsloftið. Ef nógu margir trúa því að allt sé að fara til fjandans fer það örugglega þangað. Erfiðleikar sem hellast yfir heila þjóð eru ekkert lamb að leika sér við. Þeir sem gera full mikið úr afleiðingum bankahrunsins eru samt fleiri en þeir sem gera of lítið úr þeim.

Fróðlegt er að reyna að gera sér grein fyrir afleiðingum hrunsins. Efnahagslegu afleiðingarnar verða áreiðanlega ekki eins miklar og margir vilja vera láta. Miklu verra er að gera sér grein fyrir öðrum afleiðingum. Þær geta þó orðið bæði miklar og langvarandi. Næstu áratugi verða allar breytingar taldar stafa af bankahruninu. Stjórnmál og stjórnum öll á landinu mun breytast. Aðild eða ekki aðild að ESB mun skipta miklu máli. Verulegur vafi er á hvernig það mál fer. Hrunið mun valda mikilli vinstrisveiflu í öllu pólitísku lífi. ESB gæti orðið raunhæfur millivegur milli hægri og vinstri.

Yfirleitt er setið lengur yfir tölvunni en æskilegt er. Mest er það vegna þess að maður hefur komið sér upp einhverjum heimskulegum rúnti af bloggum og öðrum óþarfa sem maður telur sér trú um að maður verði endilega að kíkja á. Ætli tölvufrí fari ekki að komast í tísku? Bráðum verður snobbað eins mikið fyrir Internetleysi eins og sjónvarpsleysi áður fyrr.

Mikið er rætt og ritað um fyrirhugað háskólasjúkrahús við Hringbrautina. Þó það hafi hafst í gegn að gera Hringbrautina að því viðundri sem hún er í dag er óþarfi að halda áfram með vitleysuna. Ekki er annað að sjá en til standi einnig að reisa samgöngumiðstöð á flugvellinum, grafa jarðgöng gegnum Öskjuhlíð, láta flugvöllinn vera áfram og stritast við að viðhalda miðbænum í Kvosinni.

Annars staðar í borginni er á sama tíma á undarlegan hátt bruðlað með pláss eins og vel má sjá á myndinni sem Sturla Snorrason birtir á bloggsíðu sinni á midborg.blog.is í blogg-grein sem hann nefnir „Dýrasti útkjálki á Íslandi."


Bloggfærslur 24. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband