873 - Mauraþúfan

Samfélög dýra þróast. Mauraþúfan bregst við aðstæðum án þess að nokkur sé stjórnandinn og án þess að einstaklingar innan hennar skilji ástæðuna eða hafi hugmynd um hana. Mannskepnan er ólík öðrum skepnum að því leyti að hún vill skilja allt mögulegt og verður jafnvel í öngum sínum ef það tekst ekki. Þetta með maurana kallast Darwinismi og er kannski tómur misskilningur eins og önnur trúarbrögð. Jafnvel rangur misskilningur.

Samfélög manna breytast líka og þróast. Þjóðríkið er líklega á undanhaldi. Sú hugmynd er ekki gömul að þjóðríkið sé einskonar ofur-fjölskylda. Samskipti fólks yfir landamæri aukast stöðugt. Það sem aðskilur fólk er miklu færra og áhrifaminna en það sem sameinar.

Ég vil ekki hætta mér lengra á þessari braut því það gæti kallað á heiftarlegar trúmáladeilur. Þær eru jafnvel verri en ESB-deilur því að þátttakendur finna jafnan sárt til þess að niðurstaða er engin og engum hefur snúist hugur.

Hvernig stendur á því að svona margir vilja lesa það sem ég skrifa? Ég hef enga skýringu fundið á því. Auðvitað finnst mér sjálfum að ég skrifi afar vel og hafi einstaklega heilbrigðar skoðanir. En af hverju ætti öðrum að finnast það líka? Svo er á það að líta að ekki skiptir minna máli um hvað er skrifað heldur en hvernig maður skrifar.

Ég skrifa náttúrulega mest um svonefndan Sæmundarhátt í bloggi. Það er að segja blogg um blogg. Annars reyni ég oftast að skrifa um nokkur efni hverju sinni. Líka blogga ég oftast nær daglega. Reyni að vera ekki mjög orðljótur. Svara oftast nær núorðið athugasemdum og svo framvegis. Auðvitað eru stjórnmálin mér alltaf ofarlega í huga. Reyni þó að láta þau ekki yfirskyggja allt annað. Reyni líka að bergmála ekki um of skoðanir annarra. Birti myndir öðru hvoru. Endurminningar líka þó það sé nú að verða æ sjaldgæfara.  


Bloggfærslur 23. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband