870 - Unga fólkið og atvinnuleysisbæturnar

Í frétt á forsíðu Morgunblaðsins segir að um 2550 ungmenni á aldrinum 15 - 24 ára séu á atvinnuleysisskrá og búi enn í foreldrahúsum. Þetta getur vel verið rétt þó ég sjái ekki í fljótu bragði hvernig blaðið kemst að þessu með foreldrahúsin. Eflaust byggist það samt á lögheimilisskráningu sem allir vita að alls ekki er alltaf í samræmi við raunveruleikann. 

Það er engin furða þó Árni Páll félagsmálaráðherra vilji komast yfir peningana sem þetta fólk fær með réttu í atvinnuleysisbætur. Þarna er örugglega um umtalsverða upphæð að ræða sem muna mundi um í kreppunni. Reglur segja samt að þetta unga fólk skuli fá atvinnuleysisbætur og það ber að virða en ekki breyta reglunum í skyndingu nú bara vegna þess að ríkisstjórninni kemur það vel.

Í framtíðinni getur það vel orðið vandamál ef margt af þessu unga fólki festist í því böli sem atvinnuleysið er. Það er hinsvegar sjálfstætt úrlausnarefni og ég kem ekki auga á að rétta ráðið sé að svipta fólkið atvinnuleysisbótum. Það er þjóðfélagið sem hefur brugðist fólkinu og ekki batnar málið ef líka á að refsa því.

Langbest er að þeir peningar sem af fólki eru teknir fari beint og milliliðalaust til þess að mennta það og veita því starfsreynslu. Skikka má fólk til að sækja slíkt.

Bloggið hentar mér ágætlega að því leyti að mér finnst mjög gott og eiginlega meiriháttar að geta á þennan hátt komið daglega frá mér texta sem ég veit að einhverjir lesa.

Ég geri ekki mjög oft athugasemdir við blogg annarra. Hef samt lent í því þrívegis að fá athugasemdir ekki birtar en í staðinn orðsendingu um að bloggsíðu-eigandi þurfi fyrst að samþykkja athugasemdina. Þessi þrír aðilar eru: Stefán Friðrik Stefánsson, Svavar Alfreð Jónsson og Jón Magnússon. Sumir gefa alls ekki kost á athugasemdum og að sjálfsögðu forðast ég blogg þeirra eins og heitan eldinn.

Lára Hanna Einarsdóttir bloggar því miður sjaldan núorðið en setur samt öðru hvoru inn greinar úr blöðum. Um daginn setti hún inn grein eftir Sverri Ólafsson. Ég byrjaði að lesa þá grein en komst ekki langt því fordómar greinarhöfundar virkuðu illa á mig. Hann segir snemma í greininni:

Síðan undirritaður kvæntist hefur hann talið að Þingeyingar væru yfirleitt betur gefnir en annað fólk. Sú skoðun hefur nú beðið alvarlegan hnekki. Suðurnesjamenn koma hins vegar ekki á óvart.

Lengra gat ég ekki lesið vegna eigin fordóma gagnvart fordómum annarra. Vel getur samt verið að þetta sé hin merkasta grein sem ég hefði betur lesið alla með athygli.


Bloggfærslur 20. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband