865 - Séra Helgi Sveinsson

Séra Helgi Sveinsson kenndi mér og okkur í landsprófsdeild Miðskóla Hveragerðis Mannkynssögu á sínum tíma. Meðal annars reyndi hann að koma í okkar heimsku  hausa helstu atriðunum í Ódysseifskviðu Hómers. Síðan prófaði hann kunnáttu okkar í þessu eðla kvæði. Ég var ekki slakastur í upprifjun á efni þessu en lét þess getið að þegar Ódysseifur komst heim til sín fyrir rest eftir mikla hrakninga var Penelópa kona hans búin að taka saman við annan.

Á þessum tíma var það ekki til siðs í fínu máli að segja „fyrir rest" (líklega er það dönskusletta - þær voru það hræðilegasta á þessum tíma) og þessvegna setti séra Helgi eftirfarandi vísupart neðst á prófblaðið mitt þegar hann skilaði prófunum.

Heim er komst hann fyrir rest
konan hafði hjá sér gest.

Ég er sannfærður um að ég væri gott efni í alkohólista. Mér finnst nefnilega svo gott að vera fullur. Eða að minnsta kosti svolítið hífaður. Auðvitað veit ég að of mikið má af öllu gera. Kannski hefur það bjargað mér frá bölvun áfengisins hve skelfilega dýrt það er hér á Íslandi.

Mér finnst bara gott á hægra liðið að þurfa nú um sinn að sætta sig við vinstri stefnu í skattamálum og öðru. Þeir þurfa bara að passa sig á því að hugsanlegt er að fólk vilji heldur skandinviskan stórabróðurleik en stöðuga þjófnaði frjálshyggjuliðsins eins og viðgengist hafa undanfarið.

Það er þungt fyrir fæti að vera stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar. Þó er áróðurinn gegn henni stundum svo einfeldnigslegur og vanhugsaður að hlægilegt er. Samt eru tímarnir þannig að mjög auðvelt er að vera á móti henni.

Ef hægri menn ætla að gera ESB málið að einhverju flokkspólitísku máli þá er eins víst að við lendum í Evrópíska stórríkinu sem þeir þreytast ekki á að vara okkur við. Reyndar verður það ekkert stórríki því Evrópusamtökin eru samtök fullvalda ríkja en ekki undirokaðra smáríkja.

Sjálfstæðismenn ráðast nú að sínum fyrrverandi formanni sem þeir komu að flestra áliti illa fram við á sínum tíma. Það er einfaldlega lítilmannlegt að ráðast að Þorsteini Pálssyni fyrir það eitt að fylgja eftir sannfæringu sinni.


Bloggfærslur 15. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband