864 - Hinn dýrlegi Davíð

Illrannsakanlegar eru óravíddir Moggabloggsins. Svona skrifar einn af aðdáendum hins nýja ritstjóra þar um slóðir alveg nýlega:

„Fyrst verður þó ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um stakkaskiptin, sem orðið hafa á blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, við ritstjóraskiptin á blaðinu haustið 2009.  Nú er málvöndun, framsetning máls og efnistök með allt öðrum hætti og mun rismeiri en áður var, vettvangur ritstjórnar orðinn skýr og tæpitungulaus, stundum með skáldlegu ívafi og hnyttni, en laus við orðagjálfur og holtaþokuvæl, sem áður vildi brenna við.  Þá hefur hortittum og ambögum stórlega fækkað í blaðinu.  Að hlakka til að fá sinn Mogga í morgunsárið var liðin tíð, en sú tilfinning kom að nýju sama dag og ritstjóraskiptin urðu, og er slíkt þakkarvert í skammdeginu, þegar fátt eða ekkert gerist upplyftandi á hinum opinbera vettvangi" 

Mikill er máttur hins dýrlega Davíðs. Blaðamenn hætta samstundis sínu holtaþokuvæli og vefja um sig skáldlegheitum og hnyttni. Verst hvað fáir tóku eftir þessum mögnuðu umskiptum.

Fram fer fróðleg umræða um höfundarrétt í athugasemdadálki Salvarar Gissurardóttur við greinina um Hallgrímskirkjumyndina. Einkum er þar rætt um höfundarrétt að myndum og nú sé ég að ég þarf að kynna mér betur þetta „Creative Commons" sem Salvör hefur stundum skrifað um. Nýjasta innleggið í umræðurnar er reyndar frá einhverjum sem telur Salvöru áður fyrr hafa talað fyrir öðru en remixi og gjaldfrjálsu umhverfi.

Nú er fjasað og þrasað sem aldrei fyrr í þinginu um persónukjör, stjórnlagaþing og þess háttar. Alveg er ég viss um að þingmenn drekkja þessum málum í málæði. Það kæmi mér mjög á óvart ef eitthvað verður úr þessu öllu saman. Á frekar von á að sæki í gamla farið á öllum vígstöðvum og hrunið gleymist að mestu í næstu þingkosningum. Einskonar þjóðfundur skilst mér samt að verði nú um helgina. Kannski verður hann upphafið að einhverju.

Þetta með Sigurð G. Tómasson og Jussa Björling er að verða svolítið pínlegt. Ég er ekkert að draga úr því að Jussi geti sungið en hef sannfrétt að fleiri geti það. Og ekki orð um það meir.


Bloggfærslur 14. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband