863 - Höfundarréttur og fleira

Salvör Gissurardóttir skrifar athyglisverða grein á sitt Moggablogg sem hún kallar „Bannað að birta mynd af Hallgrímskirkju". Þessi grein hefur vakið talsverða athygli og það vantar ekki að sumir sem andvígir eru skoðunum hennar séu henni reiðir.

Salvör hefur marga fjöruna sopið og þekkir höfundarréttarmál út og inn og þarf ekki á minni aðstoð að halda. Það var þó meðal annars vegna óþarfrar breytingar á höfundarrétti sem Netútgáfan hætti starfsemi sinni árið 2001. Meðan ég stjórnaði þeirri útgáfu kynnti ég mér vel margt sem ritað er um höfundarréttarmál og var lengi áskrifandi að póstlista þar sem þau mál voru ýtarlega rædd af kunnáttumönnum um allan heim.

Skiljanlega var það samt sá réttur sem fylgir rituðu máli sem ég kynnti mér best. Sá eignarréttarskilningur sem lagður er í höfundarrétt hefur á síðustu áratugum farið vaxandi á Vesturlöndum. Annars staðar í heiminum er hann alls ekki ríkjandi.

Velti stundum fyrir mér hvort Sverri Stormsker finnist sjálfum að bullið í sér sé fyndið. Mér finnst það ekki. Hann er of mikið í kúk og piss bröndurum og ómerkilegum útúrsnúningum og uppnefningum fyrir minn smekk. Gamansemi hans er oft ógeðsleg. Samt vil ég ekki láta loka fyrir vitleysuna úr honum. Baggalútur er þó mun fyndnari og jafnvel Spaugstofan á köflum.

Eitthvað var verið að gagnrýna guðsmenn í bloggpistli um daginn. Þá kommentar einn: „Enginn verður óbarinn biskup". Síðueigandi var fljótur til svars og spurði með þjósti: „Nú, hver barði Karl?"

Hér á heimilinu er til bókin „Hermikrákuheimur" eftir Kleópötru Kristbjörgu. Ekki kannski mikið lesin en samt til. DV skrifar mikið um Kleópötru og kallar hana Majónesdrottningu. Gísli Ásgeirsson og Jónas Kristjánsson minnast líka á hana. Jónas telur hana vera skylda Sylvíu Nótt. Það kann vel að vera að Majónesdrottningin sé bara auglýsingatrix og endi sem þátttakandi í Evróvisjón.


Bloggfærslur 13. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband