862 - Jón Steinar Ragnarsson

Sé ekki betur en Jón Valur Jensson sé enn að munnhöggvast við Jón Steinar Ragnarsson. Les JVJ ekki jafnaðarlega en hann setti nafn Jóns í fyrirsögn hjá sér nýlega svo ég kíkti á þá færslu. Gæti skrifað margt um Jón Steinar. Hann kommentar stundum á bloggið mitt og er oftast dálítið neikvæður og stundum áberandi fljótfær.

Virðist fara sem hvítur stormsveipur um lendur Moggabloggsins (og kannski víðar) og kommenta út og suður. Bloggar samt sjálfur líka, að minnsta kosti öðru hvoru. Setur þó stundum aftur og aftur sömu sögurnar og lætur þess ekki getið að um endurbirtingu sé að ræða. Sögurnar eru samt góðar því hann er ritfær í besta lagi. Það er kannski eðlilegt að JVJ sé uppsigað við Jón því hann er einmitt annar af mestu afkristnunarpostulum Moggabloggsins (hinn er DoctorE)

Nú er ég búinn að blogga það mikið um Jón Steinar að ég get skammlaust sett nafnið hans í fyrirsögnina hjá mér og tryggt mér þannig umtalsverðan lestur. Trúi að minnsta kosti ekki öðru en Jón Valur kíki á þetta.

Jónas Kristjánsson skrifar á sínu bloggi um reiða hægrið og hefur eins og jafnan talsvert til síns máls. Fylgi Borgarahreyfingarinnar virðist vera á hraðferð til Sjálfstæðisflokksins. Slíkt er skammtímaminni kjósenda að ekki er hægt að sjá annað en núverandi ríkisstjórn sé kennt um báknið og hrunið. Hvítþvottur Bjarna Ben og Davíðs virðist semsagt ætla að virka. Hvítþvottur Framsóknarmanna sem fram fór á síðasta flokksþingi þeirra virðist aftur á móti ekki ætla að virka. Sennilega er það vegna þess að þeir Sigmundur og Höskuldur eru óttalega seinheppnir að ekki sé sagt vitlausir.

Á það til að kommenta hjá öðrum. Stundum fæ ég tilkynningu um að athugasemdin muni birtast síðar ef síðuhöfundur samþykki hana. Þetta dregur mjög úr löngun minni til að kommenta oftar hjá viðkomandi. Get ekki að því gert. Hef líka lent í því að athugasemdirnar eru ekki samþykktar, sem mér finnst vera bölvaður dónaskapur.


Bloggfærslur 12. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband