860 - Hefur spilað fótbolta allt sitt líf

Las svolítið um visakorts-málið í DV og sá svo fjallað um það í Kastljósi. Ef hægt er fer hlutur KSÍ í málinu sífellt versnandi.

Aumingja fjármálastjórinn álpaðist blindfullur inn á strípi-stað í Sviss og lánaði nærstöddum Visa-kortið KSÍ. Þetta var fyrir mörgum árum og svo verður allt vitlaust núna. Þetta er góður maður og hefur spilað fótbolta allt sitt líf, segir Geir Þorsteinsson sjálfur. Þá þarf ekki framar vitnanna við. Auðvitað eru allir englar sem hafa einhverntíma spilað fótbolta. Svo er Geiri Goldfinger eitthvað að auglýsa sig í tilefni af þessu. Ekki fara knattspyrnumenn til hans. Því trúi ég barasta ekki.

Ekki ætla Reykvíkingar að hætta við sína elsku stöðumæla þó reynslan af klukkukortum sé góð á Akureyri. Víða annars staðar eru þau einnig notuð með ágætum árangri. Reykvískir embættismenn eru ekki vanir að láta blekkjast af rökum.

Minnisstæð er líka að sérstök rannsókn var gerð á því uppátæki Akureyringa að hafa ókeypis í strætó. Í ljós kom í þeirri viðamiklu rannsókn að fleiri ferðuðust með strætisvögnum en ella ef fargjald var fellt niður. Þetta kom gríðarlega á óvart og enginn hafði reiknað með þessu.

Þó Reykvíkingar vilji fjölga strætisvagnafarþegum var ákveðið að lækka fargjöldin ekki. Rekstur kerfisins var betur tryggður með hækkun fargjalda. Líklega hættir hinn óþarfi strætisvagnaakstur hér í Reykjavík og nágrenni alveg þegar allir verða hættir að ferðast með þeim. Þeim árangri má ná með því að hafa fargjaldið nógu hátt.

Nú er ég búinn að komast að því hvernig vísan er sem kom til umræðu hérna um daginn. Sá hana á blogg.gáttinni. Hún er svona:

Selfyssinga er sinnið heitt.
Sundurlyndið stöðugt vex.
Í því tafli er brögðum beitt.
Bxg6.

Svo er DoctorE allt í einu orðinn aðalmálið aftur í kommentunum hjá mér. Aðalatriðið í hans máli er nafnleysið en ekki trúarfóbían. Það þarf að tryggja að nafnleysið njóti réttar. Andstæðingar þess vilja fyrir hvern mun koma böndum á tjáningarfrelsið.


Bloggfærslur 10. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband