827 - Ein krísan af annarri

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar, sem ég las fyrir nokkru, er sagt frá því að starf forsætisráðherra sé þannig að ein krísan taki jafnan við af annarri. Ég held að Jóhanna geri sér grein fyrir þessu. Sé ekki að ástandið geti skánað í þjóðfélaginu þó núverandi ríkisstjórn fari frá. 

Sagt er að Sjálfstæðismenn íhugi að bjóða Framsókn og Vinstri grænum hlutleysi ef ákveðnar verði kosningar fljótlega. Hef ekki trú á að svo verði. Samt álít ég að núverandi stjórn verði ekki við völd út kjörtímabilið.

Áður fyrr þegar aðeins var mögulegt að sjá eina sjónvarpsrás hér á Íslandi var meira horft á sjónvarp en nú er. Á vinnustöðum mátti ganga útfrá því að margir hefðu horft á sjónvarp kvöldið áður og hægt var að hefja umræður um efni þess án nokkurs inngangs. Nú er þetta sjaldan hægt.

Gott ef RUV er ekki bara að skána. Sé ekki betur en ég þurfi að fylgjast með fjórum þáttum þar næstu vikurnar. Á þriðjudögum er það Hrunið, miðvikudögum Kiljan, fimmtudögum vísindaþátturinn hjá Ara Trausta og svo er Spaugstofan á laugardögum. Sem betur fer sýnist mér að horfa megi á alla þessa þætti á Netinu svo tímasetningarvandamálið ætti að vera úr sögunni.

Maður nokkur lenti í því að sprakk á bílnum hjá honum þar sem hann var einn á ferð um nótt. Púnkteringar voru algengari í gamla daga en nú er. Tjakkur var stundum kallaður dúnkraftur í hátíðlegu máli.

Ekki var mjög langt á næsta sveitabæ og maðurinn fór þangað því tjakkurinn hans var bilaður. Á leiðinni velti hann mikið fyrir sér hvernig móttökurnar yrðu á bænum. Bjóst við að þær yrðu ekki góðar. Rökræddi um málið við sjálfan sig fram og aftur  á leiðinni og varð sífellt æstari og á endanum fokreiður.

Kom svo að bænum og barði að dyrum. Svefndrukkinn maður kom í glugga á annarri hæð og spurði:

„Hvað gengur á? Hvað get ég gert fyrir þig?"

„Eigðu þinn andskotans dúnkraft sjálfur. Ég hef ekkert við hann að gera." sagði maðurinn hinn versti og skálmaði í burtu.

Sá í kvöld að búið var að kveikja á friðarsúlunni í Viðey. Hélt að það ætti ekki að gera fyrr en á afmæli Lennons og að hann hafi fæðst 9. október 1940. En hvað um það hér eru nokkrar nýlegar myndir.

IMG 4090Nammi namm

IMG 4095Kílómetraköttur

IMG 4101Húsfell og Helgafell

IMG 4102Vífilfell

 

Bloggfærslur 8. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband