825 - Davíð vs. bloggarar

Sagt er að bloggheimar logi einn ganginn enn. Ekki finn ég fyrir þessum bruna frekar en fyrri daginn. Davíð er víst að hallmæla bloggurum. Sama er mér. Les ekki Moggann. 

Einhverjir blogga um þetta mál en lítið er að marka það. Mér finnst flest annað merkilegra. Les Fréttablaðið afar sjaldan því það berst aldrei til mín og mér finnst það yfirleitt ekki nógu merkilegt til að gera reka að því að nálgast það.

Mér er sama hverjum augum ritstjóri Moggans lítur bloggara. Margir þeirra eru þó miklu persónulegri og orðljótari en mér þykir við hæfi. Moggabloggsteljarinn er það fyrirbrigði sem ég tek mest mark á. Varla mundi ég nenna að blogga ef teljarinn sá segði mér ekki að einhverjir lesi eða skoði að minnsta kosti bloggið mitt. Margt fleira get ég gert hér á blogginu og í heildina er ég ekkert óánægður með dvölina hér.

Að ég sé ekkert óánægður með dvölina gerir mig auðvitað að hægri bloggara í augum margra. Skoðanir hef ég á ýmsu og vissulega læt ég einhverskonar hægri og vinstri sjónarmið ráða í málum sem ég skil illa. Sjálfum finnst mér ég vera meira til vinstri en hægri í slíkum málum en auðvitað er lítið mark takandi á því.

Ráðherrar tilkynna að vandi heimilanna sé leystur. Ég sé ekki betur en boðaðar aðgerðir séu bara afbrigði af því að velta vandanum á undan sér. Einhverjum og jafnvel mörgum getur það samt bjargað frá gjaldþroti. Útgjöldin eru líka þeirrar náttúru að þau eru ósýnileg lengi vel. Auðvitað eru skuldareigendur ekki hrifnir af því að afskifa afganga en þá verður komin ný stjórn og önnur vandamál.

Icesave verður að hverfa. Það vofir yfir okkur eins og Damoklesar sverð. Ég er í engum vafa um að þetta verðum við að borga þó ósanngjarnt sé. Útlendingar standa okkur einfaldlega ekkert að baki og eiga alveg jafnan rétt og við á að geta tekið út sinn sparnað. Það er skítt að vera til og ennþá meira skítt að þurfa að láta útrásarræningja og vanhæf stjórnvöld ráðskast með líf sitt, en við því er lítið að gera svona eftirá.

Skorað er á fólk að sniðganga bæði Morgunblaðið og kók. Þarna er ég í vanda. Nota nefnilega hvorugt. Viðurkenni samt að ég styð Moggann óbeint með því blogga hér. Auk þess versla ég oft í Bónus og á erfitt með að venja mig af því.

Menn keppast nú við að spá því að stjórnin falli. Ég hef ekki trú á að svo verði. Nægilega margir úr óánægða liðinu hjá vinstri grænum munu á endanum samþykkja Icesave og þar með er stjórninni borgið. Líkurnar á öðru stjórnarmynstri eru einfaldlega hverfandi og kosningar eru fjarlægur möguleiki.


Bloggfærslur 6. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband