846 - Teygjustökk og síðbuxur

Fyrsta alvöru teygjustökkið sem ég sá á ævinni var fyrir allmörgum árum við Kringluna. Þar var öllum boðið að stökkva ef þeir þyrðu og lengi vel voru menn ekki áfjáðir í það. Einn lét sig þó hafa það og hoppaði af palli einum sem krani nokkur hélt í háalofti. Sá sem stökk og var með teygjukaðal um fæturna á sér var enginn annar en Tommi í Tommaborgurum sem nú er kominn með Fischerskegg eitt mikið og vígalegt. Mér þótti samt meira til hans koma í stökkinu.

Metró sem áður var byggingarvöruverslun í Skeifunni er nú tekin við McDonalds. Sama er mér. Væri kannski þess virði að setja saman vísu um það. Davíð sjálfur gæti komið þar við sögu. Dettur bara ekkert í hug. Samkvæmt mynd í Moggatetrinu virðist mér umbúðalínan minna á matvælalínu hjá MS.

Las í dag ágæta grein eftir Njörð P. Njarðvík í boði Láru Hönnu. Hún gerir það oft að taka myndir af athyglisverðum greinum og setja þær á bloggið sitt. Fyrir það er ég henni þakklátur því ég nenni yfirleitt ekki að lesa dagblöðin. Bloggið hennar og fleiri blogg skoða ég samt yfirleitt á hverjum degi.

Rauðhærður riddari reið inn í Rómaborg. Rændi þar og ruplaði rabbarbara, radísum og rófum. Hvað eru mörg R í því? Þetta er ein af þeim þulum sem vinsælar voru í mínu ungdæmi. Man að ég velti því líka oft fyrir mér hvað átt væri við þegar aldrað fólk talaði um sín sokkabandsár. Sjálfur man ég eftir að hafa verið í koti og notað sokkabönd þegar ég var lítill og hve mikil upphefð það var að fá að fara í síðbuxur.


Bloggfærslur 27. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband