843 - Varðhundar valdsins

Hættulegasta fyrirbrigðið á Internetinu eru nafnlausir einstaklingar sem henda skít í allar áttir og eyðileggja orðstír vammlausra manna. Spúa eitri sínu um allan þjóðarlíkamann og reyna að valda sem mestum skaða. Þetta er skoðun margra. Ekki bara Sturlu Böðvarssonar og Björns Bjarnasonar. Margir taka undir þetta og atlaga sú sem nú er gerð að tjáningarfrelsinu er heiftarlegri en áður hefur þekkst. 

Það er langt frá því að ég sé yfirleitt sammála Agli Helgasyni í stjórnmálaskoðunum. En í viðleitninni til að hrista af sér óværu ritskoðunar stend ég heilshugar með honum. Vegna þess að nafnleysi er stundum misnotað í miður góðu skyni á nú að hefta málfrelsi allra þeirra sem hafa eitthvað að segja en þurfa að leyna nöfnum sínum og uppruna. Ég er ekki þeirrar skoðunar að drepa beri sjúklinginn til að stöðva sjúkdóminn. Sú aðferð hefur verið reynd og gefist illa. Fyrir hvert höfuð sem höggvið er spretta upp þrjú önnur.

Í mörgum tilvikum býr Gróa á Leiti í blogginu og athugasemdum þess. Við því er ekkert að gera. Kjaftasögurnar berast út með ógnarhraða. Það er bara betra en að þær kraumi lengi í skúmaskotum og aukist og margfaldist þar. Áhrif þeirra verða kannski talsverð um stund, en þeir sem saklausir eru og fyrir þeim verða, fá þó tækifæri til að bera þær af sér. Nafnlaust níð er heldur ekki til vinsælda fallið og fyrr en varir snýr fólk baki við slíku. Atkvæðin liggja hjá almenningi og fólk er búið að fá nóg af ráðsmennsku liðinna ára.

Ritskoðun er auðvelt að færa í fagran búning föðurlandsástar og hreinleika. Búning þjóðrembu og sjálfsánægju einnig. Úlfshárin sjást þó jafnan. Nafnlausir og orðljótir athugasemdavitleysingar á Eyjunni eru aðalmálið núna. Næst verða það aðrir og svo ég og þú. Við megum samt halda áfram svolitla stund enn því við höfum trúað Stóra Bróður fyrir kennitölum okkar, en okkur er ráðlegast að fara varlega.

 

Bloggfærslur 24. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband