842 - "Nei, þetta er of þröngt"

Í athugasemdum hjá Eiði Svanberg Guðnasyni við bloggfærslu sem hann nefnir: „Mola um  málfar og miðla 181" eru markverðar gæsalappapælingar og bendi ég áhugamönnum á þær. Eiður ræðir auk þess um málfar og framburð en á því hef ég mikinn áhuga. Málfar íþróttafréttamanna er oft til umræðu. Málfar þeirra er gjarnan óvandað en afsakanir fyrir því er oftast auðvelt að finna. 

Stundum liggur þeim mikið á og þá verða til orðskrípi eins og „himstrakeppi" sem á víst að þýða heimsmeistarakeppni. Stundum liggur þeim hins vegar lítið á og hafa lítið að segja og þá verða til fjólur eins og „Markvörður Íslands spyrnir nú frá marki sínu" (það yrði aldeilis upplit á mönnum ef hann spyrnti frá marki andstæðinganna). Þegar sókn upp miðjuna mistekst þá er gjarnan sagt og andvapað þungt. „Nei, þetta er of þröngt."

Kiljan í gærkvöldi (miðvikudag) var áhugaverð. Þar ræddi Egill Helga við Bjarna frænda um nýútkomna skáldsögu hans og að auki við Eyþór Árnason sem ég þekki dálítið frá veru minni á Stöð 2.

Heilmikill taugatitringur er nú á blogginu vegna þess að Björn Bjarnason sjálfur gagnrýnir Egil Helga ótæpilega fyrir blogg sitt og fleira. Ég get ekki að því gert að mér finnst Egill vera orðinn fulláberandi án þess að ég vilji eitthvað vera að gagnrýna hann. Silfrið horfi ég oft á og mér finnst alls ekki hægt að gagnrýna val hans á viðmælendum þar. Auðvitað hefur hann skoðanir á málum. Skárra væri það nú. Það gerir BB líka. Sá í dag fyrirsögn á Mbl.is sem var einhvern vegin svona: „Björn á skautum réðst á Sirkusstjóra." En hún var víst ekkert um þetta mál.

Í kastljósi kvöldsins var appelsínuhúð frestað til morguns af óviðráðanlegum orsökum.


Bloggfærslur 23. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband