837 - Séra Gunnar

Allir eru á tauginni útaf séra Gunnari. Mér finnst þetta fremur ómerkilegt mál. Viðurkenni þó að auðvitað getur það haft áhrif. Anna K. Kristjánsdóttir ræðir svolítið um þetta á sínu bloggi og segir meðal annars í lokin: „Það grátlegasta er samt það að einustu sigurvegarar í slíkri rimmu sem hér um ræðir eru andstæðingar þjóðkirkjunnar og trúleysingjar."

Mér er ósárt um þó þjóðkirkjan setji niður við þetta. Finnst biskupinn samt hafa rétt fyrir sér í þessu máli. Ef hann má ekki færa menn til í starfi ræður hann ansi litlu. Prestsstarfið er viðkvæmara en önnur fyrir málum sem þessu og ef ósætti er mikið í söfnuðinum vegna prestsins finnst mér að hann eigi að víkja. Ríkiskirkja er reyndar allsekki í takt við tímann. Auðvitað eru mörg mál sem leysa þarf, til að af aðskilnaði ríkis og kirkju geti orðið. Kirkjan ætti samt að stefna í þá átt en ekki berjast á móti því.

Menn eru því vanastir að hafa sinn prest og sína kirkju. Vandamálið er auðvitað hver á að borga prestinum kaup og bera annan kostnað sem leiðir af kirkjulegu starfi. Mér finnst engin ástæða til að ríkið geri það. Auðvitað mundi margt breytast ef ríkið hætti að styðja kirkjuna og líklega er ekki hægt að gera það mjög snögglega. Tími er þó kominn til að ríkið hætti að vasast í trúmálum. Nóg er nú samt.

Umræðan um orkulindir landsins og auðæfi þess á eflaust eftir að fara vaxandi enda er það sú umræða sem mestu máli skiptir. Hvernig við högum okkur í málum sem einkum snerta ókomnar kynslóðir er það mikilvægasta. Okkur finnst kannski að það sé okkar efnalega velferð sem mestu máli skiptir en svo er ekki. Hvernig Ísland framtíðarinnar verður er það sem mestu máli skiptir.

Næstu daga mun pólitísk umræða ná nýjum hæðum. Icesave mun verða meira áberandi en nokkru sinni. Hvort það dugar til að koma ríkisstjórninni frá veit ég ekki og hef enga sannfæringu fyrir að það yrði til bóta.


Bloggfærslur 18. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband