836 - Ný fjölmiðlalög

Ný fjölmiðlalög eru á leiðinni. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skýrði frá því að ný fjölmiðlalög væru væntanleg. Þegar reynt var að koma slíkum lögum á árið 2004 varð allt vitlaust. Ekki veit ég hvort svo verður nú og heldur ekki hvort í þessum lögum verður tekið á málum sem snerta Internetið. Búast má þó við að reynt verði að koma böndum yfir þá aðila sem mest fara í taugarnar á stjórnvöldum. Fyllsta ástæða er til að vera á verði. Mannréttindi eru ekki bara til hátíðabrúks og fjálglegra ræðuhalda.

Netsamskipti fólks eru með ýmsu móti. Blogg, Facebook, tölvupóstur og ýmislegt annað. Þau hafa svo áhrif á samskipti fólks í kjötheimum. Margt verður með þessum hætti flóknara en áður var. Kostirnir eru samt margir. Sjálfur hef ég hingað til komist af án þess að skrá mig á Facebook. Kannski fer ég samt þangað á endanum.

Þar sem Auðbrekkan kemur niður á Nýbýlaveginn er komið hringtorg og ný aðkeyrsla að veitingahúsunum og verslununum þar í kring. Engu að síður eru alltaf þónokkrir bílar á hverjum degi sem koma áleiðis upp Auðbrekkuna og snúa við þar í brekkunni til að komast að fyrirtækjunum. Maður gæti ímyndað sér að stjórnendur bifreiðanna mundu smám saman læra á þetta en svo virðist ekki vera. Kannski eru bílarnir bara svona margir.

Annars minnir þetta mig á nýja sláturhúsið úti í Brákarey í Borgarnesi. (Já, það var einu sinni nýtt.) Þar var langur, brattur og mjór gangur úr réttinni í banaklefann og lömbin voru afar treg til að fara eftir honum. Einhver sagði þá: „Þau læra þetta smátt og smátt."

Vel má halda því fram að ráðning Davíðs Oddssonar sem ritstjóra Morgunblaðsins hafi verið pólitísk aðgerð. Ef til vill ekki flokkspólitísk þó. Ýmislegt bendir til að þessi ráðning ætli að hafa heilmiklar afleiðingar. Ekki bara fyrir Morgunblaðið heldur einnig fyrir stjórnarandstöðuna sem áreiðanlega hélt að hún hefði líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér. Ömmi situr svo bara eftir með sárt ennið.


Bloggfærslur 17. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband