835 - Sviptingar í bloggheimum

Sturla Böðvarsson fyrrum samgönguráðherra og forseti Alþingis ritar grein á Pressuna þar sem hann gagnrýnir Egil Helgason harkalega auk þess að koma netlögguhugmyndum sínum á framfæri. Egill er pólitískur í bloggi sínu og leyfir allar athugasemdir þar. Að hann skuli um leið vera starfsmaður RUV gerir málið svolítið flókið. Það sem Sturla vill í þessu getur hæglega verið stórhættulegt fyrir málfrelsið í landinu.

Pressan leyfir engar athugasemdir. Eyjan gerir það hinsvegar og þá að sjálfsögðu Egill líka. Enda er hann eyjubloggari. Mbl.is leyfir athugasemdir þeim sem skráðir eru hjá þeim og þá verður athugasemdin um leið að sjálfstæðu bloggi sem aftur er hægt að gera athugasemdir við. Allt er þetta nokkuð skrýtið og eflaust er hugmyndin sú að fjölga bloggurum með þessu og gefa um leið stjórnendum Moggabloggsins sem mest vald yfir þeim sem þar athugasemdast eða blogga.

Nú sigli ég hraðbyri upp vinsældalistann á Moggablogginu. Það er auðvitað mest vegna þess að margir fínir bloggarar fóru á Eyjuna eða sögðust ætla þangað, þegar Davíð Oddsson var gerður að ritstjóra á Morgunblaðinu. Svo á hún Óskírð Bjarnadóttir ef til vill einhvern hlut í þessum nýfengnu vinsældum. En úr því Lára Hanna yfirgefur okkur Davíð ekki þá er ég að hugsa um að vera kyrr hér enn um sinn.

Fyrst eftir kosningarnar í vor vorkenndi ég þeim sem höfðu kosið Vinstri græna vegna þess að þeir væru flokka líklegastir til að koma í veg fyrir að Ísland yrði ESB að bráð. Nú eru það ég og aðrir þeir sem Borgarahreyfinguna kusu sem eru vorkunnar þurfi.

Það var eiginlega Friðrik Þór Guðmundsson (lillo.blog.is) sem segja má að hafi platað mig til að kjósa Borgarahreyfinguna á sínum tíma. Meðan hann var hér á Moggablogginu las ég bloggið hans oft og að sumu leyti var það fyrir hans áhrif að ég ákvað að kjósa hreyfinguna.

„Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu." Segir séra Gunnar Björnsson og nú má búast við að hitni í kolunum á Selfossi þó eflaust séu engin ný Staðamál í uppsiglingu.

 

 

Bloggfærslur 16. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband