564. - Seint fyllist sálin prestanna. (Orðtak um ágjarnt fólk)

Orðtök eru stundum runnin frá þjóðsögum. Þau eru ekkert verri fyrir það. "Ýsa var það heillin" segja eflaust margir án þess að hugsa nokkuð um þjóðsöguna sem það orðtak er byggt á. "Seint fyllist sálin prestanna" er ekki algengt orðtak en þekkist þó. Um uppruna þess má lesa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Sú saga er hér í lauslegri endursögn.

Sál getur þýtt einhverskonar poki eða taska og gerir það í þessu tilfelli. Kölski kemur víða við sögu í íslenskum þjóðsögum.

Ein þeirra fjallar um að maður nokkur bað sér stúlku en hún neitaði honum. Útaf þessu varð maðurinn hugsjúkur mjög og rölti eitthvað út í haga. Þar kom þá maður einn til hans (Kölski) og bauðst til að telja stúlkunni hughvarf. Manngreyinu fannst ekkert gera til þó hann þæði það boð. Aðkomumaður vildi að hann yrði vinnumaður sinn ef þetta gengi eftir og kvaðst koma aftur að ári liðnu.

Stúlkunni snarsnerist hugur og giftust þau nú í snatri og urðu samfarir þeirra góðar. Þegar næstum ár var liðið fór maðurinn að velta mikið fyrir sér hvernig þetta færi allt saman. Leitaði til prestsins síns og sagði honum alla sólarsöguna. Prestur sá strax að hér var illt í efni og ráðlagði manninum að heimta að aðkomumaðurinn fyllti sál eina með peningum og mætti hann þá eiga sig.

Eftir fyrirsögn prests var nú hóll nokkur holaður að innan og opnaður efst og þar í sett botnlaus sál. Þegar Kölski kom og vildi heimta vinnumanninn bað hann um að taskan efst á hólnum yrði fyllt af silfurpeningum og samþykkti Kölski það. Sótti síðan peninga og setti í sálina. Síðan meira, enn meira og svo enn og aftur miklu meira en ekki gekk rófan. Sagði að lokum: "Seint fyllist sálin prestanna" og stökk í burtu.

 

Bloggfærslur 5. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband