563. - Jú, það ber ekki á öðru. Ég er orðinn ósýnilegur eins og fleiri. Líka svolítið um kryddsíldaruppþotið við Hótel Borg.

Nánar tiltekið þá hafa Moggabloggsguðirnir tekið mig af einhverjum listum og nú birtist upphafið á bloggum mínum ekki á forsíðunni og ekki í upplýsingum um nýjustu bloggin. Ég get víst heldur ekki linkað í fréttir á mbl.is en það hef ég hvort eð er ekki gert svo það er bættur skaðinn. Þetta hefur eitthvað með samkeyrslu þeirra Moggamanna á sínum eigin kennitölulistum og þjóðskránni að gera.

Eitt er gott við þetta og það er að nú ættu þær tölulegu upplýsingar um heimsóknir sem ég fæ að vera raunverulegri. Eflaust hefur stundum verið tilviljanakennt áður hverjir hafa rekist hingað inn. Kannski hefur þetta einhver áhrif á hve oft ég skrifa og hvernig. Sjáum til.

Stuðningur við eða andúð á ákveðnum atburðum fer mest eftir þeim upplýsingum sem maður fær. Uppþotið við Hótel Borg á gamlársdag ber langhæst í allri fréttaumfjöllum. Sjálfum finnst mér frásögn Eyþórs Árnasonar sviðsstjóra hjá Stöð 2 og bloggvini mínum bera af. Auðvitað varð hann ekki sjónarvottur að öllu sem gerðist þarna. Hann lætur líka vera að dæma um það sem hann sá ekki.

„Eru þeir kallaðir stúdentar af því að þeir eru alltaf að stúta rúðum?" spurði sonur minn sem var nýfarinn að tala þegar sem mest gekk á í óeirðum víða um heim fyrir margt löngu. Til dæmis í París en þó ekki að ráði á Íslandi. Nú eru alvöru óeirðir ef til vill að skella á okkur Íslendingum.

Mér virðist sem aðalágreiningurinn milli mótmælendahópa sé hvort hylja skuli andlitið eður ei. Engir vilja meiða aðra. Ekki heldur lögreglan. Andlitsleysi fylgja oft óeirðir sem leiða jafnvel til atburða sem engir vilja sjá. Nafnlaus fjöldi sem fyllir göturnar er aftur á móti það sem stjórnvöld óttast allra mest. Ég styð Hörð Torfason í því sem hann er að gera.

 

Bloggfærslur 4. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband