588. - "Forseti, segðu af þér" segir Agnes Bragadóttir

Agnes Bragadóttir skrifar pistil í Morgunblaðið í dag (föstudag) sem heitir: "Forseti, segðu af þér". Þar skorar hún á Ólaf Ragnar Grímsson að segja af sér sem forseti og segir meðal annars: "Fyrirgefðu Ólafur! Það er ekkert eðlilegt að við séum upplýst um þinn vilja í efnum sem þér koma einfaldlega ekki við. Þú átt að hafa vit á því að halda þig á mottunni og láta stjórnmálamönnum eftir að rækja sitt hlutverk."

Ég kaus Ólaf Ragnar á sínum tíma og þó mér leiðist oft rausið í honum og útrásarvíkingarnir hafi platað hann þá vil ég ekki að Agnes Bragadóttir ráði því hvað honum kemur við. Hana hef ég aldrei kosið til neins.

Reyndar er ég ekki heldur vanur að lesa Morgunblaðið en líklega hefur fleirum en mér fundist þessi pistill hennar athyglisverður því ég rakst á hann ljósritaðan áður en ég fletti honum upp í Mogganum. Þar er hann við hliðina á forystugreinunum í miðopnu blaðsins.

Þetta með hvalveiðarnar hjá honum Einari Guðfinns er bara fíflalegt. Svona haga ráðherrar sér ekki. Eflaust finnst honum þetta snjallt. Margir verða fegnir að geta stundað hvalveiðar, en Einar gerði þetta einkum til að spilla fyrir stjórnarmyndunarviðræðum. Ég er stuðningsmaður hvalveiða en get ekki lokað augunum fyrir áliti umheimsins. Ástandið í stjórnarmyndunarviðræðunum er þannig núna að Sigmundur Davíð er í örvæntingu að reyna að bjarga andlitinu.

Þegar ég vann hjá Heildverlsun Hannesar Þorsteinssonar var til stofnun sem hét Gjaldeyrisdeild bankanna. Ingólfur í gjaldeyrisdeildinni komst oft á fyllerí útá það eitt að vinna þar. Auglýsingar í Stefni sáust aldrei. Voru samt dýrar og heildsalar og margir fleiri máttu gjöra svo vel að borga. Allir vissu að þetta var bara gjald sem þurfti að greiða í flokkssjóðinn eina og sanna.

Einhverju sinni fórum við í skólanum í Hveragerði í Þjóðleikhúsið að sjá leikritið um Don Camillo. Don Camillo var kaþólskur prestur í ítölskum smábæ og sögur af honum mjög vinsælar um þetta leyti. Mér hefur aldrei brugðið annað eins í leikhúsi og þegar allt í einu var skotið á Don Camillo þar sem hann var í mesta sakleysi að mála húsið sitt.

En svona er mafían. Sumum bregður ekki bara. Þeir týna lífinu. Svo eru fleiri en mafíósar afbrotamenn. Þeir sem stela eyri ekkjunnar til að geta frílistað sig í útlöndum eru verri en mafíósar. Þeir eru útrásarvíkingar.

 

Bloggfærslur 31. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband