579. - Er allt að fara til fjandans?

Stjórnmálin eru að yfirtaka bankahrunið. Það er farið að skipta miklu máli hvernig mótmælendur haga sér. Hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu fljótt, nú eða strax. Hvenær landsfundir verða og þess háttar. 

Svo er verið að nota sér fyrirlitninguna á útrásarvíkingum og stjórnvöldum til að koma á löngu tímabærum lagfæringum á stjórnskipulagi. Sem er hið besta mál. Gæti samt orðið stjórnmálunum að bráð. Stjórnmálaskoðanir skipta mestu máli. Flokkarnir vilja endilega halda sínu. Siðbót er samt að verða í stjórnmálum. Fylgi á eftir að breytast verulega. Breytingar á hugarfari eru miklar. Fólk er hætt að láta teyma sig eins og lömb til slátrunar.

Hvar endar þetta eiginlega með útsölurnar? Ég þori helst ekki að kaupa nokkurn skapaðan hlut nema hann sé að minnsta kosti með 80 prósent afslætti.

Bloggskrif eru ekki samkeppni um að hafa sem hæst og vera sem orðljótastur. Þetta hef ég reynt að hafa að leiðarljósi í mínum skrifum. Líka reyni ég að hafa skrif mín ekki óþarflega löng.

Í mannkynssöguprófi hjá Séra Helga Sveinssyni átti ég eitt sinn að endursegja efni Ódysseifskviðu og talaði meðal annars um að Ódysseifur hefði komist heim fyrir rest. Rest fannst Séra Helga gott orð í þessu sambandi og skrifaði neðst á prófblaðið:

Heim er komst hann fyrir rest
konan hafði hjá sér gest.

Einu sinni var Ólafur Ragar Grímsson ungur og beittur. Ég man vel eftir bankaþættinum hans í sjónvarpinu. Þar ræddi hann með tveimur hrútshornum við bankastjóra þess tíma. Flestir urðu þeir fýldir við og svöruðu litlu. Jónas Haralz tók þó mælgina í ÓRG alvarlega og reyndi að kenna honum svolitla hagfræði. Þáttur þessi hlýtur að vera til í safni sjónvarpsins og gaman væri að sjá hann aftur eða hluta úr honum.


Bloggfærslur 23. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband