571. - Slæmt málfar er alltof algengt í íslenskum fjölmiðlum

"Fjöldi fólks er nú illa statt" sagði Sigmundur Ernir í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Öllum getur misskátlast sagði kerlingin forðum og allir eiga leiðréttingu orða sinna. Þarna tel ég að það sé fjöldinn sem ræður kyninu en ekki fólkið. Rétt væri setningin þá svona: "Fjöldi fólks er nú illa staddur".

Auðvelt er að breyta orðalagi ef fólk er í vafa. Gera verður afdráttarlausar og miklar kröfur til helstu fjölmiðla þjóðarinnar. Stöð 2 er ekkert mbl.is þar sem óvaningar fá að æfa sig og gera mikið af vitleysum.

Í færslu minni í gær var vitnað til samsláttar á máltækjum hjá sálfræðingi í Silfrinu á sunnudaginn var. Í framhaldi af því urðu nokkrar umræður í kommentakerfinu sem benda má þeim á sem kunna að meta fyndnar afbakanir.

Í færslunni í gær skrifaði ég líka svolítið um skák en vísaði um nánari umfjöllun á Hrannar Baldursson. Kommentaði líka hjá Hrannari eða ætlaði að gera það. Kommentið fór svo frá mér öðruvísi en ég ætlaði en mér fannst það svo gott að ég ákvað að segja ekki meira.

Hvað er það sem Bush Bandaríkjaforseti sér mest eftir úr forsetatíð sinni? Jú, því að hafa lýst of fljótt yfir sigri í stríðinu við Íraka. Mikið væri veröldin öðruvísi ef meirihluti fólks áliti þetta hans verstu mistök. Áberandi er hve góðar óskir fylgja nýjum Bandaríkjaforseta hvarvetna að úr heiminum.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að íslensk stjórnvöld hafa staðið sig mjög illa í snjómokstrinum eftir bankahrunið. Ingibjörg Sólrún hefur lýst því fjálglega hve mikið hún hefur lagt sig fram við moksturinn. Betra hefði verið að fá stórvirkari tæki strax og jafnvel væri réttast að leita núna út fyrir landsteinana þó seint sé.

 

Bloggfærslur 14. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband