535. - Hvernig fer innganga í Evrópusambandið fram? - Mín hugmynd

Á mínu bloggi hefur nokkrum sinnum komið til umræðu möguleg innganga Íslands í EU. Skoðanir um þetta mál eru afar skiptar og fer það ekki eftir flokkum hverjar skoðanir manna í þessu efni eru. Eitt af því sem deilt er um og menn virðast alls ekki geta orðið á eitt sáttir um er sjálft ferlið.

Í mínum augum er ferlið fremur einfalt. Ríkisstjórnin getur ákveðið að sækja um aðild. (Það gæti vel gerst eftir Landsfund Sjálfstæðisflokksins í janúar næstkomandi.) Þá yrðu samningsmarkmið væntanlega skilgreind og samninganefnd skipuð. Eftir samningaviðræður mundi annaðhvort ganga saman með aðilum eða ekki. Gerum ráð fyrir að samkomulag tækist. Þá yrði Alþingi að samþykkja nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá. Ef breytingar á stjórnarskrá yrðu samþykktar þyrfti að rjúfa þing og nýtt þing að samþykkja sömu breytingar.

Þá fyrst tel ég að hægt yrði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn sjálfan. Úrslitin í þeirri atkvæðagreiðslu yrðu bindandi.

Þannig sé ég mögulegt ferli fyrir mér. Aðrir kunna að hafa ýmislegt við þetta að athuga. Sjálf inngangan og mögulegir skilmálar er ekki til umræðu í þessu tilviki. Bara ferlið sjálft. Sumir hafa talað fyrir því að hafa margar þjóðaratkvæðagreiðslur um málið en það tel ég algjöran óþarfa. Flestir virðast sammála um að stjórnarskrárbreytingar séu nauðsynlegar til að af inngöngu geti orðið.

Tölvusnillingarnir hjá RUV eru samir við sig. Fékk hrikalegt bjartsýniskast áðan og ætlaði að horfa á upptöku af Spaugstofunni á Netinu. Auðvitað var bara hluti af þættinum aðgengilegur. Eftir því sem Lára Hanna segir er von til þess að skárri útgáfa verði sett á Netið á morgun eða einhverntíma. Verst ef ég verð þá búinn að missa áhugann á honum.

Einn af fylgifiskum þeirrar bloggónáttúru sem hrjáð hefur mig síðustu árin er að nú finnst mér ég eiga hægara með að koma orðum að ýmsum óljósum hugsunum og hugmyndum en áður var. Ég er samt svo háður bloggstílnum að annar stíll hentar mér eflaust illa. Höfuðeinkenni bloggstílsins finnst mér vera að það sem maður skrifar fer fljótt frá manni og þýðingarlaust er að ímynda sér að hægt sé að breyta því.

Þegar skrifin eru farin út í eterinn er hægt að snúa sér að einhverju öðru og það er mikil blessun. Blogglestur tekur líka oft ærinn tíma. Svo mikinn að annar lestur er sífellt að verða minni og minni. Þó finnst mér gott að hafa með mér bækur í rúmið og stunda líka bókasöfnin grimmt.

 

Bloggfærslur 7. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband