559. - Það er þetta með forsetamyndirnar. Já og kennitöluflakkið og Framsóknarflokkinn auðvitað

Ég hef verið að fylgjast svolítið með umræðum um forsetamyndirnar. Ástþór segist hafa leitað að þeim í klukkutíma á forseti.is án þess að finna þær. Hrannar Baldursson segist hafa fundið þær á einni sekúndu. Hvorttvegga er eflaust rétt en sýnir bara hvernig við hugsum oft eftir mismunandi brautum. Sjálfur reyni ég að fljóta ofan á og sýnast voða gáfaður en er þó óttalegur Ástþór inn við beinið.

Þetta á ekki aðallega við um tölvur heldur opinberast oft með áberandi hætti í tæknimálum ýmiss konar. Ég á til dæmis ekkert erfitt með að skilja hvernig það urðu tæknileg mistök hjá séra Árna Johnsen að stela nokkrum steinum og ýmsu fleiru. Þegar þetta kom upp var Árni bara að hugsa eftir alltöðrum brautum en spyrillinn.

Mest er ég hissa á að fjölmiðill eins og Eyjan.is sem líklega vill láta taka sig alvarlega skuli birta frétt um forsetamyndirnar eftir sögusögn einni. Gjörsamlega ófær vinnubrögð að mínum dómi.

Svo er ég líka upptekinn af því núna að stjórnendur Moggabloggsins (eða tölvuforrit á þeirra vegum) virðast álíta mig kennitöluflakkara og hafa skrifað mér bréf af því tilefni. Sigurður Þór var líka að skrifa um þetta og ekki par ánægður. Ég útskýrði þetta svolítið í kommenti hjá honum en er að hugsa um að endurtaka það.

Á sínum tíma skráði ég mig á Moggabloggið sem saemi.blog.is og notaði rétta kennitölu. Eitthvað misfórst það og ég skráði mig aftur. Þá var bæði skrásetningarnafnið og kennitalan komin í einhverja heilaga skrá svo ég gat ekki notað það. Kennitöluna hefði ég gjarnan viljað nota aftur en fékk ekki. Þá datt mér í hug að nota kennitölu konunnar minnar og bæta 7 við blogg-nafnið. Allt gekk vel við það en nú kemur þetta semsagt í hausinn á mér og ég hef víst bloggað á hennar ábyrgð allan tímann. Best að vinda bráðan bug að því að biðja Moggabloggs-stjórnendur að breyta þessu.

Bjarni frændi minn Harðarson tók eitt sinn svo til orða í Silfri Egils fyrir nokkrum árum að í grunninn væru allir sem um stjórnmál hugsa annaðhvort Framsóknarmenn eða Kratar. Þorvaldur Gylfason orðaði sömu hugsun í sama þætti einhvern vegin á þann veg að allir væru annaðhvort opingáttarmenn eða einangrunarsinnar.

Mér fannst þetta ágætlega orðað og álít sjálfan mig samkvæmt þessu frekar vera Krata og opingáttarmann en einangrunarsinnaðan Framsóknarmann. Nú ætlar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson víst að breyta öllum sem eru í Framsóknarflokknum í Krata. Kannski er ég bara að verða vinstrigrænn og misskil þetta allt saman.

 

Bloggfærslur 31. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband