558. - Hvað má birta á Moggablogginu?

Moggabloggið er skrýtin skepna. Í sumu eru stjórnendur þess siðavandari en guðhræddustu Bandaríkjamenn en annað leyfa þeir eins og ekkert sé. Þar á meðal hreinræktaðar snuff-myndir. Ég var að hugsa um að skoða myndbandið hans Jens Guðs en hætti við það. Eins fór mér á sínum tíma þegar afhausunarmyndband frá Írak fór eins og logi yfir akur á Netinu. Ætli það hafi ekki verið b2 sem birti hlekk á það. Aftur á móti horfði ég á Njarðvíkurmyndbandið á YouTube fyrir nokkru og það var alveg nóg fyrir mig.

Myndir sem á einhvern hátt er hægt að túlka sem kynferðislegar eru alveg bannaðar á Moggablogginu. Um daginn var einu bloggi lokað vegna umræðu um lát "Deep Throat" og birtingar á mynd sem hægt var að túlka sem kynferðislega þó ekki væri um hreina klámmynd að ræða. Það sást heldur ekki neitt sérstakt á myndinni og kannski treysti viðkomandi á það. Man ekki hver þetta var en Brjánn bloggvinur minn veit það örugglega því við vorum held ég eitthvað að athugasemdast á hans bloggi.

Aftur á móti virðist mega birta á Moggablogginu hverskonar klám sem er ef það er ekki myndrænt. Klámvísur hef ég séð þar verulega svæsnar en veit ekki til að það hafi haft nein eftirköst. Samt held ég að bloggum hafi verið lokað fyrir að birta ritað mál af röngu tagi. Auðvitað er það svo að stjórnendur bloggsins stjórna því á þann hátt sem þeim finnst henta. Við erum hér í boði þeirra og mér finnst þjónustan ágæt en stjórnunin stundum ansi tilviljanakennd.

Mér hefur skilist að samkvæmt einhverjum skilmálum séu bloggarar hér sjálfir ábyrgir fyrir öllu sem birtist á þeirra bloggi. Athugasemdum einnig. Ég minnist þess þó ekki að hafa undirritað neina skilmála en vera kann að ég hafi samþykkt þá með aðgerðarleysi eða óviljaklikki. Ég á erfitt með að sætta mig við þetta með athugasemdirnar. Ef einhver kommentar á mín bloggskrif og annaðhvort stuðar með því Moggabloggsguðina eða brýtur jafnvel lög þá geri ég ráð fyrir að ég sé ekki ábyrgur fyrir því nema sannað verði að ég hafi vitað af því og ekki gert neinn reka að því að losna við það.

 

Bloggfærslur 30. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband