556. - Um Evrópusambandsaðild og bankahrunið mikla. Líka svolítið um Ástþór Magnússon sem sníkjubloggar hjá Villa í Köben

Evrópuumræðan blossar alltaf upp öðru hvoru. Gallinn er sá að beggja megin línunnar eru menn alltof fullyrðingasamir. Þeir sem aðildarviðræður styðja segja sumir að þeir sem fyrirfram hafi tekið afstöðu séu aðalvandamálið. Því er ég ekki sammála. Þetta mál er alltof stórt og of flókið til þess að hægt sé að reikna alla hluti út og þessvegna byggist afstaða margra að sjálfsögðu á einhvers konar trú eða skoðunum sem þeir hafa aflað sér á löngum tíma. Auðvitað er samt sjálfsagt að ræða málin sem ítarlegast.

Það sem fer mest í taugarnar á mér í Evrópuumræðunni er þetta sífellda landráðatal hjá andstæðingum aðildar. Þeir sem vilja aðild eru ekkert minni eða lélegri Íslendingar en aðrir. Það er hjákátlegt að vera með svona bull og alls ekki málefnalegt. Sem betur fer er svona öfgahjal betur til þess fallið að fæla fólk í burtu en laða að. Íslendingar munu alls ekki missa sjálfstæði sitt við aðild frekar en aðrir.

Það er miklu nær að tala um landráð hjá því fólki sem setti okkur vitandi vits á bólakaf í bankakreppunni. Uppsafnað vanhæfi kallar Stefán Jón Hafstein það í ágætri grein í Fréttablaðinu sem ég var að lesa í boði Láru Hönnu áðan.

Ég lít svo á að stuðningur við Evrópusambandið sé að mörgu leyti stjórnmálalegur. Það eru í rauninni kapítalisminn og sósíalisminn sem berjast um völdin í veröldinni og það er erfitt að vera hlutlaus í þeirri baráttu. Í mínum huga er Evrópusambandið fulltrúi sósíalismans og Bandaríki Norður-Ameríku fulltrúi kapítalismans. Aðrir eru svona beggja blands en halla sér þó gjarnan að öðrum aðilanum. Nýfrjálshyggjan hefur sannarlega riðið húsum hér á Íslandi undanfarin ár eða áratugi. Vinstri stefna mun líklega vinna talsvert á í næstu kosningum.

Umhverfisvernd af öllu tagi á eftir að skipta æ meira máli. Hið kapítalíska skipulag er í eðli sínu fjandsamlegt náttúruvernd. Það hefur hið sósíalíska líka verið að mörgu leyti fram að þessu. Þó eru vinstri menn yfirleitt hlynntari náttúrvernd en þeir hægrisinnuðu. Umhverfisvernd á sér betri möguleika innan sósíalska skipulagsins og það má segja að núverandi fjármálalegt kreppuástand sem er í heiminum öllum sé til marks um ófullkomleika hins kapítalska kerfis. Fjármálakreppan sem nú skekur heiminn er ekki síður áfall fyrir nýfrjálshyggjuna en fall stjórnvalda í Sovétríkunum sálugu var áfall fyrir kommúnismann.

Ég sé að Ástþór Magnússon Wium sníkjubloggar hjá Villa í Köben. Af hverju í ósköpunum er ég alltaf að lesa bloggið hans Villa meira og minna? Hann er bara svo andskoti vel skrifandi maðurinn. Skaði að hann skuli vera svona öfgasinnaður og mikill vinstrimanna og EU-hatari. Svo hef ég alltaf haft hálfgerðan ímugust á síonistum, veit ekki af hverju.


Bloggfærslur 28. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband