555. Fljúgandi kanínur í Akurey

Frá því er sagt í ferðabók Dufferins lávarðar sem hér var á ferð árið 1856 að þeir ferðalangar höfðu setið að sumbli hjá Trampe greifa lengi kvölds og brallað margt er þeim datt í hug að fara á báti út í Akurey. 

Ferðabók Dufferins var gefin út árið 1944 og eru þar margar góðar sögur. Sama er að segja um ýmsar aðrar ferðabækur um ferðir manna til Íslands bæði á nítjándu öld og fyrr. Fyrir efnaða Evrópubúa var það minna mál að fara til Íslands að sjá frumstætt fólk og einkennilegt mannlíf en margra fjarlægari staða.

En áfram með frásögnina um Dufferin og félaga. Þeir höfðu semsagt verið við drykkju hjá Trampe greifa og flækst víða um bæinn er þeir ákváðu að fara á báti út í Akurey.

Þegar út í eyna kom sáu þeir þar mikinn fjölda af kanínuholum og hvítar eyrnalausar kanínur með rauð trýni útum allt. Þeir reyndu að handsama þessi einkennilegu dýr en þá spruttu þeim vængir og þau flugu á brott. Þeir náðu þó að handsama fáein kvikindi í holum sínum og komust þá að því að kanínurnar voru í fuglslíki. Ekki höfðu þeir neina hugmynd um hvers konar skepnur þetta væru en líkur hafa verið leiddar að því að þarna hafi verið um lunda að ræða.

Lundatekja í Akurey skapaði góðar tekjur á þessum tíma og var um talsverð hlunnindi að ræða. Menn fóru gjarnan nokkrir saman út í eyna síðsumars og veiddu drjúgt af lundakofu sem öll var nýtt. Kjötið af henni þótti ágæt viðbót við einhæfan kost bæjarbúa sem auðvitað lifðu einkum á trosi.

Hvað var tros? Kynni einhver að spyrja. Einfaldast er að spyrja orðabókina en þar eru ýmsar skýringar. Algengast var þó að um ýmiss konar fiskúrgang væri að ræða og fisk sem ekki þótti nógu góður til að verka til útflutnings. Sjómenn máttu yfirleitt hirða slíkan fisk sjálfir og gera sér þann mat úr honum sem hægt var. Það var einkum þorskur sem náð hafði vissri stærð sem flattur var, saltaður og þurrkaður til útflutnings á þessum árum.


Bloggfærslur 27. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband