552. - Um verðtryggingu og fleira. Jólasaga kemur kannski seinna

Á margan hátt er verðtrygging húsnæðislána að verða mál málanna. Þegar verðbólgan æðir áfram hækka húsnæðislánin. Verðtryggingin átti sennilega rétt á sér á sínum tíma og á kannski enn að einhverju leyti. Augljóslega er hún þó vitlaust reiknuð. Margt er inni í vísitölugrunninum sem ekki ætti að vera þar. Kannanir hagstofunnar á verðlagi eru heldur ekki yfir gagnrýni hafnar. 

Gefi menn sér hve miklir vextir séu og verðbólga getur vel verið að hægt sé að reikna dæmið verðtryggingunni í hag. Hins vegar er hún greinilega til bölvunar að því leyti sem hún er verðbólguhvetjandi.

Óðaverðbólgan sem hér var viðvarandi áður fyrr var kveðin niður á endanum með þjóðarsáttinni svonefndu. Í rauninni viðurkenndu launþegar þar að stöðugleiki væri æskilegur og tóku á sig byrðar til að ná honum. Nú er stöðugleikinn rokinn út í veður og vind og verðbólgan hægir líklega ekki á sér nema krónunni verði komið fyrir kattarnef og ýmislegt fleira gert. Þjóðarsátt með gamla laginu er varla í myndinni.

Annars er ég orðinn hundleiður á að skrifa um bankahrunið og svo eru margir aðrir mun betur til þess fallnir en ég.

Yfirleitt er ekki mjög slæmt veður um jól. Þó man ég eftir einni mikilli bylgusu sem kom einmitt á aðfangadag. Þetta hefur líklega verið árið 1974. Þá bjó ég á Vegamótum á sunnanverðu Snæfellsnesi og það gerði aftakaveður seinni partinn á aðfangadag.

Nú er morgunn aðfangadags og veðrið heldur hryssingslegt hér í Kópavogi. Rok og rigning en ég held að spáð sé að það lagist. Söguna um Aðfangadagsbylinn mikla reyni ég kannski að rifja upp um jólin. Hef ekki tíma til þess núna.

Gleðileg jól.


Bloggfærslur 24. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband