548. - Það að fjölmiðlalögunum var komið fyrir kattarnef er orsök bankakreppunnar segir HHG

Bloggið er orðið áhugaverður vettvangur fyrir pólitískar pælingar. Var að lesa blogg eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hann er skýr í hugsun en ég er langt frá því að vera yfirleitt sammála honum. Margir tileinka sér speki hans og finnst mikið til um hana. 

Samkvæmt kenningum hans er bankahrunið núna aðallega útaf því að fjölmiðlalögunum árið 2004 var komið fyrir kattarnef án þess þó að þjóðin fengi um það að kjósa. Ég er sammála Hannesi um að átökin 2004 hafi verið markverð pólitísk átök. Þeir sem halloka fóru þar geta þó ekki endalaust kennt þeim ósigri um allt sem miður hefur farið síðan.

Átökin árið 2004 kristölluðust í fjölmiðlalögunum. Nú virðist það vera innganga í Evrópusambandið sem eigi að skilja sauðina frá höfrunum. Gallinn er bara sá að mál eru sjaldan eins einföld og þau virðast vera.

Upphrópanir útrásarandstæðinga eru að verða svolítið holar. Ef gera á andstöðu við Evrópuaðild að skilyrði þess að vera tækur til mótmæla þá er ég farinn. Mín skoðun er sú að við Íslendingar séum svo fáir og smáir að við getum farið okkur að voða í viðsjálum heimi. Því sé okkur hollast að halla okkur að Evrópu. Þetta hefur ekkert með núverandi kreppu að gera. Hún sýnir þó að varkárni er þörf.

Hróp Evrópuandstæðinga um að með því að vilja ganga í Evrópusambandið sé ég orðinn landráðamaður læt ég mér í léttu rúmi liggja. Að ég sé með því kominn í lið með útrásarvíkingum og andstæðingum náttúruverndar er verra mál. Dilkadráttur af því tagi er samt það sem pólitík dagsins virðist kalla á.

Ég er málfarsfasisti. Þessi klausa er af Eyjunni og bara af því að málfarið þarna er ekki eins og mér finnst að það eigi að vera er ég sjálfkrafa dálítið á móti þessu. Eflaust er þetta samt ágætis tillaga.

Hvernig væri að setja upp útimarkað niður á höfn þar sem skemmtiferðaskipin leggja að og koma með alla túristanna. Þar gæti handverksfólk, sultugerðafólk, listamenn, prjónakonur, hver sem er, sem getur búið til gjaldeyrir. Hvernig væri t.d. að vera með (ostabás vel lyktandi)

Andskotans snjókoma er þetta alla daga. Ekki nóg með að þessi hvíti ófögnuður geri allt erfiðara heldur fer allt í vitleysu þegar þetta breytist í vatn. Skíðafólk fagnar þessu kannski en má ekki vera að því að renna sér núna vegna snjómoksturs! Segi bara svona.

 

Bloggfærslur 20. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband