546. - Svona finnst mér stóra DV-málið líta út

Menn eru enn með þetta DV-mál á heilanum. Ég skal lýsa í stuttu máli hvernig ég held að þetta hafi gengið fyrir sig.

Blaðamaðurinn verður fúll yfir því að fréttin sem hann skrifaði um Sigurjón í bankanum birtist ekki í blaðinu. Hann hélt endilega að þetta væri merkileg grein og honum hafði skilist að hún yrði örugglega birt. Ritstjórinn segir að hann geti ekki birt hana og ber ýmsu við. Smám saman magnast gremjan hjá blaðamanninum og þar sem hann treystir ritstjóranum ekki tekur hann segulband með sér og fer enn og aftur að kvarta við hann.

Ritstjórinn veður úr einu í annað og heldur því fram að honum hafi verið hótað öllu illu ef hann birti þessa merkilegu grein. Reynir að friða blaðamanninn og fá hann góðan. Það gengur ekki og blaðamaðurinn hefur allt á hornum sér.

Svo skrifar blaðamaðurinn nýja grein um þetta allt saman og fær hana birta í Nei-blaðinu á vefnum sem veitir ekki af auglýsingunni.

Ritstjórinn snýr við blaðinu þegar hann sér greinina í nei-inu og kannast ekki við neitt. Veit ekki af upptökunni. Þegar Kastljósfólkið heyrir upptökuna sér það upplagt tækifæri til að ná sér niðri á manninum með hattinn sem þau eru hvort eð er orðin hundleið á.

Síðan fer allt á fullt.

Ég held semsagt að þó Reynir segi eflaust ekki satt og rétt frá þá sé engin sérstök hótum sem tengist þessari frétt. En trúverðugleiki hans og blaðsins er endanlega farinn held ég.

Þessar eilífu fréttir í fjölmiðlum um fréttamenn og blaðamenn og hvernig þeir haga sér og hugsa heitir að pönkast á almenningi. Það er fleira sem skiptir máli.

Jón Gerald, Jónína Ben og Sverrir Stormsker hamast við það á Útvarpi Sögu að endurlífga Baugsmálið allt saman. Það heyrðist mér að minnsta kosti í bílnum áðan. Það eru áhugaverðir tímar í vændum.

 

Bloggfærslur 18. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband