543. - Um Ómar Ragnarsson, Kolbrúnu Baldursdóttur og fleiri

Ég er að lesa um þessar mundir bók eftir Ómar Ragnarsson. Hún heitir: „Fólk og firnindi" og kom út árið 1994. Eflaust hef ég lesið hana áður en það eru kaflar í henni sem höfða miklu meira til mín núna.

Vorið 2007 dvaldi ég í Fljótavík í viku og var það eftirminnileg dvöl. Við flugum þangað og þaðan og á heimleiðinni lá við slysi þegar flugvélin rakst í barð við flugtak. Það er saga sem ekki verður rakin hér. Þónokkrum árum áður hafði ég farið í gönguferð um Hornstrandir allt frá Hrafnsfirði og norður í Hornvík. Þaðan til Hlöðuvíkur og Kjaransvíkur og yfir til Hesteyrar. Eftir þetta er allt sem Ómar skrifar í þessari bók um Vestfjarðakjálkann mun áhugaverðara. 

Er nýbúinn að uppgötva hvílíkur fjársjóður er á netinu á inntv.is. Þar hef ég aðallega verið að horfa á þáttinn „Í nærveru sálar" sem Kolbrún Baldursdóttir stjórnar. Er búinn að horfa á viðtöl við Bjarna Harðarson, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Guðbjörgu Hildi Kolbeins og á líklega eftir að horfa á fleiri. Líka mun ég eflaust líta á aðra þætti.

Mér finnst þetta vera framtíðin í sjónvarpsfjölmiðlun. Að minnsta kosti á það við ef myndgæðin skipta ekki neinu meginmáli. Það er gott að vera laus við að þurfa að beygja sig undir það ofbeldi sem sérstök tímasetning sjónvarpsþátta er. Horfði samt á Silfur Egils í dag á rauntíma og verð bara að segja að mér finnst gagnrýni sú sem víða heyrist orðið á stjórnvöld hér á Íslandi verða sífellt beittari og beittari. Kannski er ég bara að verða pólitískari og pólitískari.


Bloggfærslur 15. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband