504. - Ástandið er alvarlegt segja Geir og Bjöggi. Bjóst einhver við öðru?

Ég vil ekki skrifa mikið um ástandið í þjóðfélaginu. Verst finnst mér hve lítið er vitað og hve litlar upplýsingar eru gefnar. Kynningarmál öll eru í algeru skötulíki hjá stjórnvöldum. Mér finnst til mikils mælst að fólk sé rólegt og yfirvegað í ástandi eins og hér hefur verið að undanförnu. 

Að skipa ný bankaráð við bankana þar sem eru sérstakir varðhundar flokkanna er einfaldlega afturför sem nemur mörgun áratugum.

Á blaðamannafundinum sem þeir Geir og Bjöggi héldu í dag fannst mér óheilindi þeirra skína í gegnum allt á fundinum. Þegar talið barst að icesave reikningunum fóru þeir einfaldlega undan í flæmingi.

Mér kæmi ekki á óvart þó lán það sem beðið hefur verið eftir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum komi aldrei og það sem einkum verði deilt um næstu vikurnar verði þessir blessaðir icesave reikningar. Ég á ekki von á öðru en fjölmenni á mótmælafundinum á mogun. Samstaðan er að lagast.

Merkilegt hve margir af þeim sem maður hittir hafa séð bloggið manns og jafnvel lesið. Sennilega er lesendum mínum talsvert að fjölga og möguleg áhrif mín þar með að aukast. Hingað til hef ég talið þau afar lítil. Kannski verð ég að endurskoða það. Moggabloggurum fer sífjölgandi. Vinsældir bloggsins eru ótrúlegar og ég get ekki séð að þær séu neitt að dvína.

Við sem eldri erum eigum ekki að hatast við unga fólkið. Obama hinn nýi forseti Bandaríkjanna nýtur einkum fylgis meða ungs fólks, kvenfólks og annarra valdleysishópa. Heimsku hvítu karlarnir hans Moores hafa líklega kosið McCain þó Palin hafi verið heldur öfgafull fyrir þá. Öfgarnar þarf að dulbúa vel til að þær njóti almenningshylli. Það kunnu stuðningsmenn Georgs Dobbeljú.

Það er mikið sem gengur á í Netheimum núna. Barack Hussein Obama notaði sér nýjustu tækni í samskiptum á leið sinni í eitt valdamesta embætti veraldarinnar. Á Vesturlöndum mun Netið innan tíðar yfirtaka gersamlega hlutverk hinna gamaldags og afdönkuðu fjölmiðla. Þeir eru flestir á hausnum hvort eð er og fáir sem sjá eftir þeim. Hlutverk þeirra mun fara síminnkandi á næstunni. Þó munu þeir ekki hverfa.

Í lokin eru svo nokkrar myndir sem ég tók um daginn í nágrenni við heimili mitt við Auðbrekku.

Burt með spillingarliðið.

 
IMG 1432IMG 1436IMG 1439IMG 1442IMG 1444IMG 1447IMG 1450IMG 1454

Bloggfærslur 8. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband