502. - Um Samuel Langhorne Clemens og tungumálið þýsku

Árið 1880 skrifaði bandaríski rithöfundurinn Mark Twain grein sem hann kallaði "The Awful German Language." Ég las þessa grein einhvern tíma fyrir óralöngu og man að þar hæðist Mark Twain á sinn einstaka hátt að þessu tungumáli í löngu og ítarlegu máli og með ýmsum dæmum. 

Síðan þetta var hef ég alltaf haft heldur horn í síðu þýskunnar þó ég viðurkenni auðvitað að hún sé sannkallað heimsmál. Ég skil mun meira í henni en í flestum öðrum tungumálum. Undanskil þó íslensku, ensku og dönsku. Kunnátta í íslensku leiðir síðan sjálfkrafa af sér skilning á færeysku og ég er alveg sammála því að með dönskukunnáttu megi komast langt í skilningi á norsku og sænsku. Ég er samt með öllu ótalandi á þýsku.

Hörður Haraldsson spretthlaupari og teiknari með meiru átti að kenna mér þýsku þegar ég var við nám á Bifröst í Borgarfirði um 1960. Það gekk illa en ég man að við nokkrir nemendur hans tókum upp þann sið að nota fáeinar þýskar setningar í tíma og ótíma (eflaust aðallega í ótíma) Við Sigurjón Guðbjörnsson tókum til dæmis upp á því að segja ævinlega þegar okkur þótti einhver komast vel að orði:

"Sehr shön Bemerkung, nicht war?"

Þetta gerðum við náttúrlega til að svo liti út að við kynnum þýsku og svo þótti okkur þetta fyndið.

"Ich habe gewesen sein" var líka vinsæl setning en þýðir mér vitanlega ekki neitt sérstakt og er bara hrúga af hjálparsögnum.

Örfáar vísur kann ég á þýsku:

Wer nicht liebt Weib,
Wein und Gesang
er bleibt Nar
sein leben lang.

Þetta er mér sagt að sjálfur Marteinn Lúther hafi látið frá sér fara og hefur það verið þýtt þannig á íslensku:

Sá sem ekki elskar vín,
óð né fagra svanna.
Verður alla ævi sín
andstyggð góðra manna.

Upphafið að kvæðinu fagra um Lórelei eftir Heinrich Heine minnir mig að sé svona:

Ich weiss nicht was soll es bedeuten
dass ich so traurig bin.
Ein Marchen von alten Zeiten
Das kommt mir nicht aus dem Sinn.

Þetta var snilldarlega þýtt á íslensku þannig:

Ég veit ekki af hvers konar völdum
svo viknandi ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.

Mér finnst eins og Jónas Hallgrímsson hafi þýtt þetta, en er þó ekki viss.

Því er ég að fjasa þetta um þýsku að þó ég lesi yfirleitt ekki gestabækur þá las ég áðan gestabókina á vef konunnar minnar (123.is/asben). Systir hennar bjó árum saman í Þýskalandi og þarna er að finna ýmislegt um þýsku og á þýsku.

Ólína Þorvarðardóttir sendir bloggvinum sínum öllum brýningu í bankakreppunni og ég er að hugsa um að hlýða henni að hluta. Hún og Lára Hanna eru báðar áberandi í bloggheimum og skeleggar í pólitíkinni eða það finnst mér.

Burt með spillingarliðið.

 

Bloggfærslur 6. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband