501. - Og 501 strax á eftir. Um svarta hundinn, Einar Kárason, Obama, Kennedy og ýmsa fleiri

Margt er um að skrifa eftir að hafa verið í hálfgerðu bloggfríi síðustu daga. Harpa Hreinsdóttir skrifar um svarta hundinn og ýmislegt fleira. Varðandi það sem hún segir um geðsjúkdóma er ég yfirleitt á sama máli og hún. Enda hef ég lesið bloggið hennar lengi. Minni á að Árni Tryggvason leikari skrifaði í ævisögu sinni um svarta hundinn og hafði langa reynslu af honum. Hef líka lesið söguna um konuna í köflótta stólnum. Churchill er með þeim frægustu sem þjáðst hafa af slæmu þunglyndi.

Ég er aftur á móti ekki sammála Hörpu þegar hún skrifar um Einar Kárason. Hef samt ekki lesið nýjustu bókina hans. Las "Óvinafagnað" á sínum tíma og þótti hún góð. Þó þeir sem vel þekkja til Sturlungu og fornra rita yfirleitt geti vel gagnrýnt margt í bók Einars held ég að þeir séu svo fáir að um markverða gagnrýni sé varla að ræða. Ef sagan er vel skrifuð er hún vel skrifuð burtséð frá öllum hugsanlegum ritgerðarefnum. Svarti hundurinn held ég að verði Einari ekki að fótakefli.

Ég spáði Obama sigri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum enda var það lítill vandi. Þegar John Fitzgerald Kennedy var kjörinn forseti í Bandaríkunum var hann fyrsti kaþólikkinn sem varð forseti þar. Efamál er að sú nýjung að kjósa blökkumann í embættið nú sé meiri en það var þá.

"Drengurinn er einstakur höfðingi" sagði Jón Ólafsson um Jón Ásgeir þegar hann keypti af honum Norðurljósaveldið eins og það lagði sig. Ég hef ekki mjög miklar áhyggjur af eignarhaldi Jóns Ásgeirs á 365 miðlum. Hluturinn í útgáfufélagi Morgunblaðsins held ég að verði honum ekki til neins gagns og hann væri áreiðanlega betur kominn hjá einhverjum öðrum. Þó yfirvöld hafi á sínum tíma heimilað samruna Hagkaupa og Bónuss er ekki þar með sagt að svo verði um Fréttablaðið og Morgunblaðið.

 

500. - Já, segi og skrifa. Fimmhundruðasta bloggið mitt. Geri aðrir betur

Þetta er tímamótablogg. Númer fimmhundruð í röðinni. Til hátíðabrigða ætla ég ekki að skrifa meira að þessu sinni. Lesendur og aðrar endur geta semsagt átt frí. Á samt von á metsigri hjá Obama.
 
 

Bloggfærslur 5. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband