527. - Byltingin er byrjuð og jafnvel langt komin

Við erum í miðri byltingu segir heimspekingurinn Kristján Arngrímsson í althyglisverðri grein í Morgunblaðinu. Það er margt rétt í því að þegar grannt er skoðað er bylting á Íslandi akkúrat núna. Hún er að vísu ekki blóðug og kemur þar tvennt til. Annars vegar er slíkur sóðaskapur víðast hvar aflagður nú um stundir og auk þess erum við Íslendingar friðelskandi þjóð eða svo er okkur sagt.

Gamlar hugmyndir um byltingar segja samt að þær eigi að vera blóðugar og einhver fjöldi fólks að láta lífið. Ef svo er ekki er byltingin hálfgert ómark í margra augum. En er það ekki bara hluti byltingarinnar að hugmyndir okkar um byltingar byltist og breytist?

En í hverju er þessi bylting fólgin? Jú, nú skal gömlu þjóðlegu gildunum varpað fyrir róða og upp teknar alþjóðlegar reglur um alla hluti. Við Íslendingar höfum lengi sótt margt til útlanda og munum enn gera. Að bankamálum og ýmsu öðru verði stjórnað erlendis frá er sjálfsagt. Gamla rómantíska hugmyndin um þjóðríkið og föðurlandsástina alltumlykjandi er dauð. Nútímamaðurinn leggur meiri áherslu á að hafa það gott en að vera gagntekinn af einhverjum óljósum hugsjónum. Með öðrum orðum það er betra að vera ánægt svín en óánægður Sókrates.

Mér hefur fundist að margir líti á þá byltingu sem nú stendur yfir sem afturhvarf til gömlu gildanna. Sú er ekki raunin. Það sem er að gerast núna er svanasöngur þeirra. Nýju gildin hafa beðið skipbrot en munu rísa upp endurnýjuð í syntesu Nýja Íslands ásamt gömlu gildunum lagfærðum og endurbættum. Eldgömlu gildin munu endanlega hverfa og sömuleiðis þau nýju og misheppnuðu sem náðu hámarki sínu í útrásarvíkingunum sem allt þóttust vita og allt geta.

Ég tel krónuvesalingnum varla viðbjargandi lengur. Þó held ég að sú tilraun sem gera á með að láta hann fljóta sé sú skynsamlegasta sem fær er. Hræddur samt um að það mistakist. Gjaldeyrishömlurnar sem beitt verður munu auka líkur á að það takist ef þeim verður beitt tímabundið en ekki í tvö ár eða meir eins og allar líkur eru á.

Varðandi heimasíðu háskólans í Reykjavík sem um þessar mundir er vinsælt að fjölyrða um vil ég segja eftirfarandi: Eðlilegast er að stjórnendur skólans ráði hvað fer á þessa síðu. Einhver sér væntanlega um að koma því þangað og fer eftir reglum þar um. Ef samþykkt verður að breyta þeim reglum fer ekki hjá því að afturvirkni slíkra reglubreytinga er ritskoðun og ekkert annað.


Bloggfærslur 29. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband