518. - Nú færist sennilega fjör í leikinn

Svei mér ef það fara ekki hausar að fjúka. Ég hef verið að glugga í umsagnir um ræðuna frægu hjá Davíð Oddssyni og sé ekki betur en eitt og annað geti leitt af því sem þar er sagt. Það má búast við að ýmislegt gerist næstu daga. Jafnvel að afsögn Guðna Ágústssonar verði smámál.

Það er samt ekkert fyndið við ástandið á landinu núna þó erfitt sé að taka það alvarlega. Að mörgu leyti minnir þetta allt saman á lélega gamanmynd. Ætlar þetta engan endi að taka. Er yfirríkisstjórnin kannski í Seðlabankanum? Sumir hafa gefið það í skyn.

En þetta eru skemmtilegir tímar þó kreppufjandinn sé það ekki. Margt er að gerast og eflaust er margt eftir enn. Davíð á förum og ríkisstjórnin hugsanlega líka.

Nú er vitað að allir helstu ráðamenn þjóðarinnar vissu að minnsta kosti í febrúar síðastliðnum hvert stefndi með fjármálakerfið íslenska. Ég tek undir það með Friðriki Skúlasyni að fróðlegt væri að fá nákvæmt yfirlit yfir það hverjir forðuðu sínum fjármunum á öruggari staði eftir að þetta varð ljóst. Ég er næstum viss um að allir ráðherrarnir hafa gert það og sennilega miklu fleiri. Með því hafa þeir að sjálfsögðu fyrirgert rétti sínum til áframhaldandi setu í valdastöðum og hugsanlega brotið lög.

Þónokkur komment fékk ég í kommentakerfið mitt vegna orða minna um EU aðild og Samfylkinguna. Ég gæti vel haft um nóg að skrifa þó ég skrifaði eingöngu um Evrópumál. Mér liggur bara svo margt annað á hjarta að ég á erfitt með að einbeita mér að því.

Athyglisverðust þóttu mér þessi orð Þorgeirs Ragnarssonar:

Og hvaða lausnir býður Samfylkingin upp á? ESB og evru, jafnvel þótt vitað sé að evran verði í fyrsta lagi komin til skjalanna eftir að kreppan verður liðin hjá. Svar Samfylkingarinnar er það að henda sjálfstæði landsins í ruslið og ganga í ríkjasamband þar sem áhrif okkar verða engin og ein helsta auðlind landsins verður afhent skriffinnum í Brussel.

Þetta er það sem ég hef kallað landráðakenninguna. "Að henda sjálfstæði landsins í ruslið" er ágæt myndlíking en ekkert meira. Ég gef lítið fyrir svona málflutning. Vissulega er þó að mörgu að hyggja en nærtækast er að horfa á hvernig öðrum smáþjóðum hefur gengið að fóta sig á Evrópubandalagssvellinu. Vinsamleg samskipti við aðra hljóta ævinlega að kalla á einhverja eftirgjöf. Hver hún verður er að sjálfsögðu undir okkur sjálfum komið.

Lítum ekki bara á Evrópu. Lítum einnig á aðrar heimsálfur. Ríki Bandaríkjanna eru um margt lík þjóðríkjum. Söguleg arfleifð er þó ekki mikil þar eftir að Indíánum var útrýmt. Viljum við vera eins og Amish-fólkið er þar og afneita öllu sem nýmóðins er? Ef við neitum öllum samskiptum við aðra nema á okkar eigin forsendum getum við endað einhvern vegin þannig.

Ég get ekki séð að þau ríki sem gegnið hafa í Evrópubandalagið hafi týnt sjálfstæði sínu. Norðmenn hafa hingað til verið okkur góð fyrirmynd í Evrópuandúðinni en svo getur vel farið að þjóð af þeirra stærðargráðu og með gnægð olíupeninga einangrist á endanum ef hún heldur áfram að fúlsa við öllu sem að EU snýr. Mér finnst að við ættum að vera á undan Norðmönnum í Evrópubandalagið því þeir enda þar líka.

 

Bloggfærslur 20. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband